Erlent

Frægir aktív­istar og rit­höfundar vara við að­för að tjáningar­frelsinu

Sylvía Hall skrifar
Gloria Steinem og JK Rowling eru á meðal þeirra sem skrifa undir bréfið.
Gloria Steinem og JK Rowling eru á meðal þeirra sem skrifa undir bréfið. Vísir/Getty

150 aktívistar, fræðimenn og rithöfundar hafa skrifað undir opið bréf þar sem er lýst yfir áhyggjum af umræðuhefð í nútímasamfélagi. Í bréfinu, sem birt var í Harper‘s Magazine í gær, er opinber smánun og útilokun frá umræðum vegna skiptra skoðana harðlega gagnrýnd.

Á meðal þeirra sem skrifa undir bréfið eru rithöfundarnir JK Rowling, Malcolm Gladwell, Margaret Atwood og Salman Rushdie. Á listanum má einnig finna Gloriu Steinem, sem þekktust er fyrir kvenréttindabaráttu sína, sem og fræðimanninn Noam Chomsky og skákmeistarann Garry Kasparov.

Á vef BBC kemur fram að mörg þeirra sem skrifuðu undir listann hafa lent í því að verk þeirra séu bönnuð í ýmsum löndum. Salman Rushdie hafi meðal annars þurft að vera í felum eftir að hafa gefið út bók sína Satanic Verses árið 1988.

Þá hefur JK Rowling verið harðlega gagnrýnd fyrir ummæli sín um trans fólk. Hefur hún ítrekað sagt baráttu trans kvenna grafa undan kvenréttindabaráttu þar sem trans konur geti ekki tengt við reynsluheim kvenna.

Bréfið hefur fengið misjafnar viðtökur, margir fagna því á meðan öðrum þykir það vera ofsafengin viðbrögð og þá sérstaklega í ljósi fyrri ummæla sumra sem skrifa undir. Þá hefur rithöfundurinn Jennifer Finney Boylan beðist afsökunar á því að hafa skrifað undir bréfið eftir að hún sá hverjir aðrir skrifuðu undir það. 

Er það líklega vegna undirskriftar JK Rowling, en Boylan hefur lengi barist fyrir réttindum trans fólks.

Í bréfinu segir hópurinn að skoðanaskipti og hugmyndir séu undirstaða frjálsra samfélaga og sífellt sé verið að vega að því í opinberri umræðu. Það sé orðið of algengt að fólki sé refsað fyrir skoðanir sem öðrum þyki „refsiverðar“ og rangar. Það sé jafnframt hættulegt fyrir rithöfunda og listamenn sem óttast að lífsviðurværi þeirra sé í hættu segi þeir eitthvað rangt.

„Við þurfum að standa vörð um ósætti í góðri trú, án þess að það hafi skelfilegar afleiðingar fyrir atvinnu í för með sér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×