Innlent

Ýmis­legt til í gagn­rýni lækna en annað bein­línis rangt að mati Þór­ólfs

Sylvía Hall skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir beindi sjónum sínum að gagnrýni ýmissa lækna á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Sagði hann ýmislegt vera réttmætt í gagnrýninni, en annað væri beinlínis rangt.

Hann áréttaði í upphafi að öll málefnaleg gagnrýni væri af hinu góða. Það væri nauðsynlegt að endurmeta aðgerðirnar reglulega, enda þyrfti hann að taka ákvörðun um áherslur þegar hann gerði tillögur til heilbrigðisráðherra lögum samkvæmt. Þó væri margt sem hefði komið fram fjarri sannleikanum.

Eftir ákvörðun Kára Stefánssonar um að Íslensk erfðagreining myndi ekki lengur taka þátt í skimunum á landamærunum var ljóst að hlutverk Landspítalans í þeim aðgerðum yrði umfangsmeira. Var það gagnrýnt, meðal annars af yfirlækni á Covid-göngudeild Landspítalans sem sagði það augljósa sóun á almannafé.

Þórólfur sagði það alrangt að um milljarðakostnað væri að ræða. Kostnaðurinn sem félli á Landspítalann snerist að mestu að því að uppfæra aðstöðu og tækjabúnað veirufræðideildarinnar og mikil þörf væri á því. Því væri frekar hægt að líta á það sem fjárfestingu til framtíðar.

Sá kostnaður sem kæmi til vegna þátttöku Landspítalans færi því að mestu í að greiða fyrir mannafla og þá vaktavinnu sem starfsfólk þyrfti að vinna. Hann væri þó langt frá því að hlaupa á milljörðum.

„Þetta er náttúrulega tala sem er fjarri öllu lagi,“ sagði Þórólfur.

Þá sagði hann einhverja tala um að það ætti að hætta skimunum nú þegar. Sjálfur væri hann á því að skima ætti út júlímánuð en hann hefði sjálfur sagt að breytingar yrðu á. Eins og staðan væri núna stæði einungis til að skima út júlí en síðan yrði tekin ný ákvörðun.

„Ég tel nú ekki mikið bera á milli þar.“

Að lokum sagði hann alrangt að halda því fram að það væri ekki hlutverk Landspítalans að taka þátt í skimunum á heilbrigðum einstaklingum. Í leyfisveitingu rannsóknarstofu Landspítalans í sýkla- og veirufræði frá árinu 2010 og samningum frá árinu 2015 kæmi skýrt fram að rannsóknarstofan ætti að taka þátt í verkefnum sem hefðu þýðingu fyrir almannaheill.


Tengdar fréttir

Enginn skriflegur samningur heldur handsalað samkomulag

Enginn skriflegur samningur var gerður milli Íslenskrar erfðagreiningar og stjórnvalda um skimun fyrir kórónuveirunni. Það þykir óvenjulegt en ekki var endilega tilefni til samningsgerðar – og það jafnframt ekki staðið til boða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×