Innlent

Rifrildi og þras um það sem hefði getað orðið

Sylvía Hall skrifar
Þórólfur á upplýsingafundi í dag.
Þórólfur á upplýsingafundi í dag. Lögreglan

„Ef við hefðum ekki gert þetta, þá hefðum við ekki vitað neitt hvað hefði verið. Við hefðum ekki vitað hvort það væru margir eða fáir og þá hefðum við haldið áfram að þrasa um það og rífast án þess að hafa nokkra vitneskju.“

Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um hvað hefði gerst hefði ekki verið ákveðið að skima við landamæri landsins. Þó væri ljóst að hefðu smitaðir einstaklingar komið til landsins hefði það leitt til mun fleiri smita.

Hann benti í því samhengi á að þegar tveir einstaklingar sem fengu neikvæða niðurstöðu úr skimun reyndust smitaðir leiddi það til þess að fjölmargir fóru í sóttkví og einhverjir smituðust.

„Þessi reynsla sýnir að þessir tveir einstaklingar smituðu allmarga og hefðu getað smitað miklu fleiri,“ sagði Þórólfur.

Hann segir verðmætar upplýsingar verða til með því að skima við landamærin. Þó þurfi að fá frekari reynslu á það hvort smitaðir einstaklingar séu að sleppa í gegn en það auki traust að hafa svo góða yfirsýn á stöðu mála. Þá sé mikilvægast að grípa Íslendinga og þá sem séu búsettir hér á landi, enda sé líklegra að þeir smiti aðra en ferðamenn í ljósi tengsla hér á landi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×