Innlent

Á­liti ríkis­lög­reglu­stjóra verður and­mælt

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir er ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir er ríkislögreglustjóri. Vísir/Vilhelm

Lögmaður Landssambands lögreglumanna telur lögfræðiálit sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri hefur aflað ekki standast. Hann vinnur að lögfræðiáliti þar sem sjónarmiðum þess er andmælt.

Þetta hefur mbl.is eftir Jóni Bjartmarz, yfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra. Fjallað hefur verið um það að Sigríður ætli sér að vinda ofan af samningum sem Haraldur Johannessen, forveri hennar í embætti, gerði við yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna um kjarabætur.

Samkomulagið leiddi til þess að föst mánaðarlaun tveggja yfirlögregluþjóna og sjö aðstoðaryfirlögregluþjóna hækkuðu um 48% að meðaltali og þeir fengu aukin lífeyrisréttindi. Það er niðurstaða álitsins sem Sigríður aflaði að Haraldur hafi ekki haft heimild til að gera umrædda samninga, þeir hafi hvorki stoð í lögum né stofnanasamningi ríkislögreglustjóra, auk þess sem engin málefnaleg rök hafi verið fyrir þeim. Vegna þessa séu þeir ógildanlegir.

„Lögmaður Landssambands lögreglumanna telur að það fái ekki staðist, þetta álit og við munum andmæla því,“ hefur mbl eftir Jóni, sem bætir við að dómsmála- og fjármálaráðherrar hafi staðfest heimild Haraldar til þess að gera samningana, en í viðtali í nóvember sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra að eftir að hafa hlýtt á skýringar Haraldar sé ljóst að Haraldur hafi haft fulla heimild til gerðar áðurnefndra samninga.

Jón Bjartmarz segir lögmann Landssambands lögreglumanna vinna að gagnáliti í málinu. Í bakgrunni má sjá Harald Johannessen.Vísir/Vilhelm


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×