Erlent

Trump í fyrsta sinn með grímu á al­manna­færi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Trump bar dökkbláa grímu.
Trump bar dökkbláa grímu. Vísir/getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti bar í dag grímu fyrir vitunum er hann heimsótti herspítala í Marylandríki. Þetta er í fyrsta sinn sem Trump sést opinberlega með andlitsgrímu síðan kórónuveirufaraldurinn hófst í Bandaríkjunum en forsetinn hefur hingað til þráast við að bera grímu á almannafæri.

Trump hitti særða hermenn og framvarðarsveit heilbrigðisstarfsfólks á Walter Reed-hersjúkrahúsinu í Maryland í dag. Áður en Trump hélt af stað í heimsóknina tjáði hann blaðamönnum að æskilegt væri að bera grímu þegar fundað væri með hermönnum sem „í sumum tilvikum eru nýkomnir af skurðarborðinu“. Gríma fyrir vitunum í slíkum tilvikum væri raunar „frábær hlutur“.

Ljósmyndarar smelltu myndum af forsetanum er hann gekk eftir gangi herspítalans. Hann ræddi ekki við fréttamenn heldur sagði aðeins „takk fyrir“, með bláa grímu merkta forsetaembættinu.

Líkt og áður segir hefur Trump hingað til ekki fengist til að bera grímu á almannafæri. Forsetinn hefur lýst því yfir að það sé val hvers og eins, þrátt fyrir að heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum mælist til þess að allir beri andlitsgrímur. Stjórnvöld í mörgum ríkjum Bandaríkjanna hafa þannig skyldað íbúa til þess að vera með grímur á almannafæri til að hefta útbreiðslu veirunnar.


Tengdar fréttir

Sóttvarnastofnun endurskoðar tilmæli eftir óánægju Trump

Leiðbeiningar sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna varðandi opnun skóla í kórónuveirufaraldrinum verða endurskoðaðar eftir að Donald Trump forseti gagnrýndi þær fyrir að vera of strangar í dag. Forsetinn hótaði jafnframt að stöðva fjárveitingar til skóla sem vilja ekki opna að fullu í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×