Það var hart barist er tvö af þremur taplausu liðunum í Pepsi Max-deild kvenna, Valur og Fylkir, gerðu 1-1 jafntefli á Origo-vellinum á Hlíðarenda í gærkvöldi.
Strax á annarri mínútu dró til tíðinda. Elísa Viðarsdóttir var þá dæmd brotleg. Víti vard dæmt og Elísu gefið rautt spjald en Sandra Sigurðardóttir varði vítið frá Bryndísi Örnu Níelsdóttur.
Á átjándu mínútu komust Fylkisstúlkur þó yfir. Sólveig Jóhannesdóttir Larsen skoraði þá eftir glæsilegan sprett en fagnið hennar var einnig einkar glæsilegt.
Það tók Val einungis sex mínútur að jafna metin en það kom fáum á óvart að þar var á ferðinni markamaskínan Elín Metta Jensen eftir undirbúning varamannsins Málfríðar Önnu Eiríksdóttur.
Bæði lið fengu sín færi það sem eftir lifði leiksins en lokatölur urðu 1-1. Valur er því með sextán stig eftir fimm leiki á toppi deildarinnar en Fylkir er með átta stig eftir fjóra leiki.
Allt það helsta úr leiknum má sjá hér að ofan.