Innlent

Óvanalegt veður á Vestfjörðum og hætta á flóðum, skriðuföllum og grjóthruni

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lögreglan á Vestfjörðum ítrekar viðvörun Veðurstofu Íslands. 
Lögreglan á Vestfjörðum ítrekar viðvörun Veðurstofu Íslands.  Lögreglan á Vestfjörðum

Gular veðurviðvaranir ráða ríkjum norðan til á landinu í dag og á morgun. Allt frá Breiðafirði til Norðurlands eystra er spáð allhvassri norðaustanátt. Veðrið verður verst á Vestfjarðarkjálkanum í dag þar sem hviður gætu farið upp í 23 m/s.

Óvanalegt veður er í kortunum í dag miðað við árstíma að sögn Haraldar Eiríkssonar, veðurfræðings.

„Það er útlit fyrir hvassa norðaustanátt norðvestantil á landinu og að það verði mikil rigning á Vestfjörðum og Ströndum. Síðan færist úrkoman yfir á Norðurland í kvöld og verður viðloðandi allan morgundaginn.“

Spáð er talsverðri úrkomu á Vestfjörðum og Ströndum í dag og á morgun. Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum og þá er hætta á skriðum og grjóthruni í bröttum hlíðum. Hvassast verður á Vestfjarðarkjálkanum 15-23 m/s.

„Það er varasamt, sérstaklega fyrir bifreiðar sem taka á sig mikinn vind.“

Einnig er búist við mikilli úrkomu og leysingum við Mýrdalsjökul og sunnanverðan Vatnajökul, með samhliða hækkandi vatnshæð í lækjum og ám. Ferðamenn eru beðnir um að sýna aðgát við óbrúaðar ár. Kaldast verður á Vestfjörðum í dag og Haraldur segir að líkur séu á snjókomu þar í nótt.

Þetta er nokkuð óvanalegt veður, svona miðað við árstíma?

„Já, þetta er það. Þetta er alldjúp lægð og verður viðloðandi landið alveg út helgina þannig að þetta er nokkuð óvanalegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×