Íslenski boltinn

Ólafur hættur hjá FH og tekur við Esb­jerg

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ólafur Kristjánsson er á leið til Danmerkur á nýjan leik.
Ólafur Kristjánsson er á leið til Danmerkur á nýjan leik. vísir/daníel

Ólafur Kristjánsson er hættur sem þjálfari FH og er tekinn við Esbjerg í dönsku B-deildinni en þetta var staðfest síðdegis á heimasíðu danska félagsins.

Ólafur tók við FH-liðinu haustið 2017. Var hann á sínu þriðja tímabili með Fimleikafélagið en hann hafði lent í 5. og 3. sæti á sínum fyrstu tveimur tímabilum með FH. 

Hann fór einnig með FH í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á síðustu leiktíð þar sem liðið tapaði fyrir Víkingi.

Þetta er í þriðja sinn sem Ólafur þjálfar í Danmörku. Hann var aðstoðarþjálfari AGF 2002 til 2004 áður en hann tók svo við Fram. Þaðan lá leiðin í Kópavog þar sem hann gerði Breiðablik að bikarmeisturum 2009 og Íslandsmeisturum árið eftir.

Ólafur tók svo við FC Nordsjælland árið 2014 og stýrði þeim þangað til í desember árið 2015. Sumarið á eftir tók hann við Randers og stýrði þeim fram til október 2017 er hann hætti. Ólafur kom í kjölfarið aftur heim og tók við FH.

Esbjerg féll úr dönsku úrvalsdeildinni á nýyfirstaðinni leiktíð en ellefu þjálfarar hafa verið í stjórastólnum hjá Esbjerg frá árinu 2010. Ólafur stýrir sinni fyrstu æfingu hjá Esbjerg 4. ágúst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×