Erlent

Segja Begum hafa rétt á að snúa aftur til Bretlands

Andri Eysteinsson skrifar
Shamima Begum fór til Sýrlands árið 2015 til að ganga til liðs við ISIS ásamt tveimur öðrum stúlkum.
Shamima Begum fór til Sýrlands árið 2015 til að ganga til liðs við ISIS ásamt tveimur öðrum stúlkum. Vísir/Getty

Breskur áfrýjunardómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að Shamima Begum, tvítug kona sem gekk til liðs við Íslamska ríkið fimmtán ára gömul, eigi rétt á því að snúa aftur til heimalandsins til þess að færa rök fyrir sínu máli fyrir dómstólum.

Breska innanríkisráðuneytið svipti Begum ríkisborgararétti árið 2019 eftir að hún fannst í flóttabúðum í Sýrlandi. Begum gekk til liðs við Íslamska ríkið árið 2015 og giftist vígamanninum Yago Riedijk sem er átta árum eldri en hún. Eignuðust þau saman þrjú börn sem öll eru látin.

Begum óskaði eftir því að fá að snúa heim til Bretlands með yngsta barn sitt en bresk yfirvöld höfnuðu þeirri beiðni og sviptu hana ríkisborgararétti. Breskur dómstóll sagði þá að heimilt væri að svipta hana réttinum þar sem að hún gæti sóst eftir ríkisborgararétti í Bangladess sökum uppruna síns.

Áfrýjunardómstóll í Bretlandi segir hins vegar að brotið hafi verið gegn reglunni um réttláta málsmeðferð í máli Begum. Henni hafi ekki verið gefinn kostur á því að halda uppi vörnum þar sem að hún var stödd í flóttamannabúðum í Sýrlandi.

Breska innanríkisráðuneytið hefur ítrekað sagst ekki ætla að aðstoða Begum á nokkurn hátt en verður nú að brjóta odd af oflæti sínu og koma Begum fyrir rétt í Lundúnum. Ráðuneytið sagði ákvörðun áfrýjunardómstólsins vera mikil vonbrigði og mun ráðuneytið leitast eftir því að áfrýja úrskurðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×