Erlent

Bók um „hættu­legasta mann heims“ rauk út á fyrsta degi

Sylvía Hall skrifar
Bókin fjallar um Donald Trump Bandaríkjaforseta og dregur upp dökka mynd af honum og uppeldi hans.
Bókin fjallar um Donald Trump Bandaríkjaforseta og dregur upp dökka mynd af honum og uppeldi hans. Vísir/Getty

Bók Mary Trump seldist í næstum milljón eintökum og situr í efsta sæti metsölulista Amazon eftir fyrsta dag í sölu. Sló hún met hjá útgefanda en alls 950 þúsund eintök seldust á fyrsta degi.

Bókin fjallar um æsku Trump, uppeldi hans og hvernig fjölskylda hans hafði áhrif á þann mann sem hann er í dag. Bókin ber titilinn „Too Much and Never Enough: How My Family Created the World‘s Most Dangerous Man“, sem mætti þýða sem „Of mikið og aldrei nóg: Hvernig fjölskylda mín skapaði hættulegasta mann heims“.

Í bókinni fer Mary yfir samband Trump við föður sinn Fred Trump, sem jafnframt er afi Mary en hún er dóttir Freds Trump yngri. Segir hún afa sinn vera siðblindan eineltissegg sem kramdi alla góðmennsku og samkennd úr þeim sem umgengust hann, en samband hennar við fjölskylduna hefur verið stirt.

Þá dregur Mary Trump upp dökka mynd af Trump forseta í bókinni og nýtir þekkingu sína sem doktor í klínískri sálfræði til þess að greina föðurbróður sinn með ýmsa skapgerðarbresti.

Simon & Schuster, útgefandi bókarinnar, flýtti útgáfudegi bókarinnar eftir að dómari komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið væri ekki bundið af samningi um þagnmælsku sem Mary Trump skrifaði undir fyrir um tuttugu árum. Mary hefur farið í þónokkur viðtöl vegna útgáfu bókarinnar eftir dómsúrskurðinn.

Í viðtali við Washington Post sagði hún ekkert vafamál að forsetinn væri rasisti. Það væri skýr afleiðing uppeldisins, en í fjölskyldunni hefði það viðgengist að viðhafa fordóma í garð gyðinga og nota niðrandi orð um svart fólk.


Tengdar fréttir

Reynir enn að koma í veg fyrir afhendingu skattagagna

Þó að Hæstiréttur Bandaríkjanna hafi úrskurðað að saksóknari á Manhattan skuli fá afhendar skattskýrslur Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna rannsóknar á högum hans er forsetinn ekki af baki dottinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×