Rauði krossinn á Ísafirði opnaði fyrr í dag móttöku á Suðureyri vegna mikilla aurskriða og grjóthruns úr hlíðum fyrir ofan bæinn. Miðstöðin er á veitingastaðnum Fisherman við Aðalgötu á Suðureyri og verður áfram opin í kvöld og í nótt vegna veðurs.
Mikið vatnsveður hefur verið undanfarna sólarhringa og sérstaklega mikið síðustu klukkustundir og hefur það aukið hættuna á aurskriðum og grjóthruni úr hlíðunum. Samkvæmt athugunum Veðurstofunnar er ekki talin mikil hætta á mannskæðum aurskriðum eða grjóthruni. Íbúar eru hins vegar hvattir til að fara varlega og að öllu með gát.
Veðurstofan hefur einkum fylgst með húsum við Hjallabyggð og Túngötu á Suðureyri en talið er óhætt að dvelja í húsunum sem og öðrum á Suðureyri. Þó hefur verið tekin ákvörðun að hafa móttöku Rauða krossins opna áfram í veitingahúsinu Fisherman og vilji einhverjir ekki dvelja í húsum sínum í kvöld eða nótt er Rauði krossinn tilbúinn að taka á móti þeim.