Innlent

Staðfest tilfelli nú orðin 161 talsins

Eiður Þór Árnason skrifar
23 ný tilfelli hafa nú greinst frá því í gærkvöldi.
23 ný tilfelli hafa nú greinst frá því í gærkvöldi. Vísir/vilhelm
Fimm ný tilfelli af kórónuveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum voru greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala nú í kvöld. Heildarfjöldi tilfella er því 161. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

23 ný tilfelli hafa nú greinst frá því í gærkvöldi. Fyrr í dag höfðu alls 1.526 sýni verið rannsökuð vegna veirunnar og voru 1.255 manns í sóttkví.

Á þriðja tímanum í dag höfðu greinst 31 annars stigs innlend smit og fimm þriðja stigs smit af þeim 156 sem þá höfðu greinst. Ekki liggja fyrir uppfærðar upplýsingar um innanlandssmit að svo stöddu.

Í dag hækkaði sóttvarnarlæknir áhættumat fyrir Þýskaland, Frakkland og Spán, þar á meðal Kanaríeyjar, í ljósi útbreiðslu kórónuveirunnar í þeim löndum. Allir sem koma frá þeim svæðum er nú gert að fara í tveggja vikna sóttkví við heimkomu.

Fyrir voru Kína, Íran, Suður Kórea, Ítalía og skíðasvæði í Ölpunum skilgreind sem áhættusvæði með mikla smitáhættu.

Ástæða hækkunar á áhættumati er mikil fjölgun sýktra og alvarlega veikra í þessum löndum. Spánn, Þýskaland og Frakkland teljast því nú til hááhættusvæða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×