Búið er að gefa út styrkleikaflokkana fjóra fyrir dráttinn í riðlakeppni heimsmeistaramótsins 2021 í handbolta í Egyptalandi. Dregið verður 5. september.
Ísland er í 3. styrkleikaflokki ásamt Frakklandi, Tékklandi, Brasilíu, Úrúgvæ, Japan, Barein og Suður-Kóreu.
HM í Egyptalandi verður fyrsta stórmót Alfreðs Gíslasonar með þýska landsliðið. Þjóðverjar eru í 1. styrkleikaflokki og geta því lent með Íslendingum í riðli. Alfreð tók við þýska landsliðinu í febrúar en á enn eftir að stýra liðinu í fyrsta sinn.
Heimsmeistaramótið 2021 verður það fyrsta með 32 þátttökuliðum. Leikið verður í átta fjögurra liða riðlum. Þrjú efstu liðin komast áfram í millriðla. Tvö efstu liðin í milliriðlunum fjórum komast svo í átta liða úrslit.
Auk Þýskalands getur Ísland fengið heims- og Ólympíumeistara Danmerkur, Evrópumeistara Spánar, Króatíu, Noreg, Slóveníu, Portúgal eða Svíþjóð úr 1. styrkleikaflokki.
Úr 2. styrkleikaflokki getur Ísland fengið heimalið Egyptalands, Argentínu, Katar, Hvíta-Rússland, Ungverjaland, Alsír eða Austurríki.
Í 4. styrkleikaflokknum eru svo Angóla, Grænhöfðaeyjar, Marokkó, Kongó, lið frá Suður-Ameríku, lið frá Norður-Ameríku, Pólland og Rússland. Tveimur síðastnefndu löndunum var úthlutað svokölluðum bónussætum (e. wildcard) á HM.
Heimsmeistaramótið í Egyptalandi hefst 13. janúar á næsta ári og lýkur 31. janúar. Leikið verður í fjórum höllum í fjórum borgum í Egyptalandi.
Styrkleikaflokkar á HM 2021
1. styrkleikaflokkur
- Danmörk, Spánn, Króatía, Noregur, Slóvenía, Þýskaland, Portúgal, Svíþjóð
2. styrkleikaflokkur
- Egyptaland, Argentína, Austurríki, Ungverjaland, Túnis, Alsír, Katar, Hvíta Rússland
3. styrkleikaflokkur
- Ísland, Brasilía, Úrúgvæ, Tékkland, Frakkland, Suður-Kórea, Japan, Barein
4. styrkleikaflokkur
- Angóla, Grænhöfðaeyjar, Marrokó, lið 4 frá Suður-Ameríku, Kongó, Pólland, lið 1 frá Norður-Ameríku, Rússland