Umfjöllun og viðtöl: Grótta - Víkingur 1-1 | Nýliðarnir náðu jafntefli gegn bikarmeisturunum

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Grótta skoraði eftir fast leikatriði í kvöld.
Grótta skoraði eftir fast leikatriði í kvöld. Vísir/Vilhelm

Eftir að hafa skorað sex mörk gegn ÍA þurftu Víkingar að sætta sig við jafntefli gegn Gróttu á Seltjarnarnesi í kvöld, lokatölur 1-1.

Heimamenn byrjuðu leikinn með látum en Karl Friðleifur Gunnarsson kom þeim yfir á annarri mínútu leiksins. Karl stangaði inn hornspyrnu frá Kristófer Orra Péturssyni en Kristófer er búinn að gefa Gróttu liðinu mikið í sumar með góðum sendingum.

Heimamenn byrjuðu leikinn með látum en Karl Friðleifur Gunnarsson kom þeim yfir á annarri mínútu leiksins. Karl stangaði inn hornspyrnu frá Kristófer Orra Péturssyni en Kristófer er búinn að gefa Gróttu liðinu mikið í sumar með góðum sendingum.

Gestirnir byrjuðu leikinn í 3-5-2 kerfi sem gekk vægast sagt hræðilega. Það gekk ekkert hjá þeim að koma boltanum inn í hættu svæði og Grótta náðu bara alveg að loka á sóknarleikinn þeirra. Þegar svona tuttugu mínútur voru búnar af leiknum þá breyttu þeir yfir í 4-3-3 kerfi. Það gerði nú ekki heldur mikið fyrir þá en þeir áttu skot í átt að markinu fyrsta hálftímann.

Atli Hrafn Andrason fékk eina færi Víkinga í fyrri hálfleik. Nafni hans Atli Barkarson gaf frábæra sendingu á hann inn fyrir Grótta vörnina. Hákon Rafn Valdimarsson markmaður Gróttu frábærlega í að verja skotið frá Atla Hrafn en skotið frá Atla var fast og í hornið. Gróttumenn lögðust alveg niður eftir að skora markið og ætluðu bara að treysta á skyndisóknir sem kom aldrei neitt upp úr.

Gestirnir fóru að spila sig betur í gegnum Gróttuvörnina í upphafi seinni hálfleiks. Þeir áttu nokkur skot í átt að markinu á fyrstu tíu mínútunum og síðan kom jöfnunarmarkið á 55. mínútu. Atli Hrafn Andrason jafnaði leikinn með skallamarki eftir glæsilega fyrirgjöf frá Davíð Erni Atlasyni. Jöfnunarmarkið opnaði leikinn dálítið en Grótta færði liðið sitt aðeins framar og reyndi að halda boltanum meira.

Eftir markið frá Atla Hrafn færðust Grótta aðeins framar á völlinn og Víkingar komust í betri sóknir. Vörnin hjá Gróttu var samt ennþá mjög þétt og færin sem Víkingar fengu voru bara einhver hálffæri. Besta færi Víkinga í seinni hálfleik fékk Helgi Guðjónsson sem kom inná sem varamaður. Hann fékk boltann í teignum og hlóð upp í skot en varnarmaður Gróttu náði að stinga sér fyrir skotið áður en það fór nálægt markinu.

Víkingar vildu fimm sinnum í þessum leik fá vítaspyrnur og í eiginlega öll skiptin útaf því að Gróttumenn eiga að hafa handleikið knöttinn í teignum. Elías Ingi Árnason dómari leiksins var aftur á móti ósammála og Víkingar voru ekkert alltof sáttir með hann.

Af hverju varð jafntefli?

Grótta skoraði þetta mark í upphafi leiksins og voru síðan nokkuð sáttir með það bara. Víkingar náðu bara einu sinni að brjóta niður varnarrútu Gróttu og þar af leiðandi fór leikurinn 1-1.

Hverjir stóðu upp úr?

Það var erfitt að velja mann leiksins í kvöld það verð ég að viðurkenna. Karl Friðleifur Gunnarsson fær þann titil í kvöld þrátt fyrir að gera ekkert annað en að skora markið og verjast síðan með öllu liðinu. Annars voru Grótta bara allir flottir í að verjast saman.

Davíð Örn Atlason var örugglega skásti Víkingurinn í þessum stórfurðulega leik. Þeir voru allir fínir varnarlega þar sem það var ekkert að gera og síðan var Davíð kannski skástur sóknarlega með nokkrar fínar fyrirgjafir. Þetta er ekki í fyrsta skipti í sumar sem vantar meiri sköpunargleði í Víkingsliðið en þeir segjast ætla að vera í titilbaráttu og þá verða þeir að geta unnið þegar það er pakkað í vörn á móti þeim.

Hvað gekk illa?

Víkingum gekk illa að brjóta niður Gróttu vörnina og uppspilið var ekki eins og Arnar vill hala það myndi ég halda. Stjörnuparið í miðvarðarstöðunum hjá Víkingum gekk líka ekki nógu vel í sendingunum sínum þrátt fyrir að þeir hafi örugglega flestar sendingarnar á vellinum. Þeir voru oft að gefa lélegar sendingar sín á milli sem slapp þó alltaf útaf lítilli pressu og síðan voru löngu boltarnir þeirra að skila litlu sem engu.

Grótta gekk á köflum illa að koma boltanum yfir miðju en markmiðið þeirra var svo sem engin markaveisla heldur bara að virða stigið sem þeir gerðu.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga tvo leiki í næstu viku, einn í Pepsi Max-deildinni og einn í Mjólkurbikarnum. Grótta sækir FH heim á mánudaginn og á svo bikarleik gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli á fimmtudaginn. Næstu tveir leikir Víkings eru gegn Stjörnunni, í deild á mánudaginn og bikar á fimmtudaginn.

Ágúst: Uppleggið virkaði vel

Ágúst hrósaði sínum mönnum eftir leikinn gegn Víkingi.Vísir/Vilhelm

„Uppleggið mitt gekk vel hjá okkar. Sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem að við skoruðum náttúrulega mjög fljótlega í leiknum úr föstu leikatriði. Svo lágu þeir eiginlega næstu 43 mínúturnar. En þeir sköpuðu sér ekkert mikið af færum en uppleggið virkaði hjá okkur og við gáfum lítið af færum,“ sagði Ágúst Gylfason þjálfari Gróttu eftir leik kvöldsins um frammistöðu sinna manna.

Víkingar voru meira með boltann í kvöld en áttu í rosalegu basli með að skapa sér færi. Allt Gróttuliðið varðist sem ein heild og það skilaði punkti í kvöld.

„Við fáum þetta mark á okkur í seinni hálfleiknum og við vorum hættulegir í skyndisóknum. En ég er sammála því að Víkingar voru meira með boltann og voru kannski betri aðilinn en við náðum stigi í dag og við virðum það.“

Gústi vill meina að Grótta hafi fengið mörg góð færi úr skyndisóknum. Þau sáust ekki nægilega vel úr blaðamannastúkunni en það er auðvitað mikilvægt fyrir þjálfara að vera jákvæður.

„Við fengum betri færi. Við vorum öflugir í skyndisóknum. Uppleggið var gott hjá okkur í dag og við vildum halda markinu hreinu en það tókst ekki. Það var góð sókn hjá Víkingunum, góð fyrirgjöf og hann náði að klára þetta vel. Við héldum þetta út og það er mikilvægast.“

Grótta fengu algjöru drauma byrjun á leiknum þegar Karl Friðleifur Gunnarsson kom þeim yfir á annarri mínútu leiksins. Eftir það lögðust Grótta niður og fóru að verjast.

„Auðvitað hefði maður viljað að við hefðum fylgt því eftir með mörkum en það gekk því miður ekki. Við vörðumst sem lið og ég var gríðarlega ánægður með vinnuframlagið hjá leikmönnum. Þeir stóðust álagið og það eru þvílíkar kanónur í þessu Víkings liði en við náðum að halda þeim allavega í einu marki og fá eitt stig út úr þessu.“

Grótta náðu að láta þá Kára og Sölva hafsenta Víkings vera mjög mikið með boltann í leiknum sem hægði á spilinu hjá gestunum og endaði með mörgum töpuðum boltum.

„Uppleggið virkaði vel og við fylgðum því eftir. Reyndar komast þeir upp hægra megin þar sem Davíð kemur með frábæra fyrirgjöf í markinu þeirra en það var eitt af fáum skiptum þar sem hann var eitthvað mikið í boltanum en við lokuðum á það og vorum grimmir inni á miðsvæðinu. Náðum ágætis skyndisóknum sem að sköpuðu nokkur góð færi, ég hefði viljað sjá hann inni en ég er sáttur við eitt stig, það er kannski sanngjarnt.“

Arnar: Ég nenni ekki einu sinni að tjá mig um þetta

Arnar Gunnlaugsson var ekki sáttur með úrslit kvöldsins.vísir/bára

„Ég er drullu ósáttur. Við vorum að koma hingað á mikilli siglingu og Grótta er að berjast fyrir lífi sínu. Þeir voru hræddir við okkur fyrir leik ég get lofað þér því. Við gáfum þeim þvílíka vítamínsprautu beint í æð á fyrstu mínútunni með mjög mjúku marki,“ sagði Arnar Gunnlaugsson hundfúll eftir leik kvöldsins en Víkingar ætluðu sér fyrir tímabilið að berjast um titilinn á meðan það spáði enginn sérfræðingur því að Grótta myndu halda sér uppi.

Grótta skoraði markið sitt eftir hornspyrnu en Víkingar hafa einmitt verið í vandræðum með að verjast gegn föstum leikatriðum í sumar. Víkingar eru með nokkra ansi stóra og stæðilega í sínu liði sem ættu að gera betur þegar það kemur að því verjast föstum leikatriðum auk þess að vera með markmann sem er nýkominn heim úr atvinnumennsku og er búinn að fara á stórmót með landsliðinu.

„En og aftur fast leikatriði sem við fáum á okkur mark úr, sem er hrikalega pirrandi með okkar stóru stráka inni í vítateig. Svo var þetta bara Groundhog Day í 90 mínútur. Við vorum með boltann og áttum sóknir, svo var sparkað fram og við áttum sóknir. Þetta var eins og uppspilsæfing á tímapunkti, þeir vörðust hrikalega vel og eiga hrós skilið fyrir gríðarlega baráttu og áttu bara skilið stigið.“

Víkingur byrjuðu leikinn með þrjá miðverði en voru fljótir að færa Viktor Örlýg Andrason upp á miðjuna þegar þeir sáu hvað Grótta lögðust neðarlega á völlinn.

„Við erum komnir 1-0 undir eftir eina mínútu og við erum með þrjá menn í vörn á móti engum sóknarmanni það meikar ekki sens. Við fækkuðum bara í vörninni og færðum mann framar sem var í vörninni.“

Grótta var ekki beint að sækjast eftir fleiri mörkum eftir að komast yfir í leik kvöldsins. Þeir spiluðu oft með 11 menn á bakvið boltann og skiptingarnar þeirra voru ekki heldur líklegar til að bæta við marki.

„Ég veit að áhorfendur trúa því ekki en það er erfitt að spila á móti liði sem að tjaldar svona fyrir framan vítateig og eru líka hættulegir í skyndisóknum. Þannig að kannski er þetta bara fínasta stig.“

Grótta færði sig aðeins framar á völlinn eftir að Víkingar jöfnuðu leikinn og þá færðist meira fjör í leikinn, það dugði þó ekki til en Víkingar náðu ekki að skora meira en þetta eina mark.

„Það dugði ekki til. Við fengum einhver hálffæri og einhver eitt, tvö tilkall til dauðafæris en fyrir utan það þá vörðust þeir bara vel. Þeir eiga bara hrós skilið.“

Víkingar vildu 5-6 sinnum í leiknum fá vítaspyrnur en fengu aldrei neitt fyrir sinn snúð. Gróttumenn virtustu nota hendurnar nokkrum sinnum við varnarleikinn en dómari leiksins vildi meina að það hafi ekki verið raunin.

„Ég sá þau öll.“

Hefðir þú viljað sjá vítaspyrnur?

„Ég nenni ekki einu sinni að tjá mig um þetta. Þetta hefur ekkert upp úr sér. Þetta skiptir engu máli þetta er bara fyrir fjölmiðlamenn og hlaðvarpara til að röfla um hvort þetta sé víti eða ekki. Það breytir ekki neinu í sjálfu sér það skiptir engu máli.“

Óttar Magnús Karlsson markahæsti leikmaður deildarinnar er að taka hornspyrnurnar hægra megin hjá Víkingum. Þetta vakti athygli blaðamanns þar sem svona menn eru oftast geymdir inni í teignum í föstum leikatriðum.

„Hann hefur tekið hornin fyrir okkur í allt sumar. Hann er mjög góður spyrnumaður og allt það. Við gerðum ekki nógu vel út úr þessum hornum sem við fengum, ég man ekki hvað við fengum mörg horn í þessum leik.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira