Innlent

Bílar með aftanívagna ættu ekki að vera á ferðinni á svæðinu að sögn veðurfræðings

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Veðurstofa Íslands hefur gefið út tvær gular viðvaranir vegna hvassviðris í kvöld og í nótt.
Veðurstofa Íslands hefur gefið út tvær gular viðvaranir vegna hvassviðris í kvöld og í nótt. Vísir/vilhelm

Veðurstofan hefur gefið út tvær gular viðvaranir vegna hvassviðris í kvöld og í nótt. Þær ná til Suðausturlands og Faxaflóa þar sem búist er við að vindhviður verði sterkar en þar er ekki ráðlagt að keyra um með aftanívagna að sögn veðurfræðings.

Í Faxaflóa er búist við að hvassast verði á sunnanverðu Snæfellsnesi. Vindhviður verði snarpar og fari sums staðar yfir 25 metr á sekúndu. Aðstæður verði sömuleiðis ekki góðar fyrir ferðalanga undir Hafnarfjalli og þá sérstaklega fyrir ökutæki með aftanívagna.

Gul viðvörun tekur gildi á svæðinu klukkan 17.

„Það er fyrst og fremst vegna vinds núna seinni partinn á sunnanverðu Snæfellsnesi og norðan til á Faxaflóanum. Það er þá sérstaklega fyrir bíla sem eru með aftanívagna, hjólhýsi og þess háttar. Þeir ættu ekki að vera á ferðinni þar,“ Sagði Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Á svæðinu er búist við að veðrið verði verst norðan Borgarfjarðar og um allt Snæfellsnes.

Gul viðvörun tekur gildi klukkan 21 í kvöld á Suðausturlandi. Þar er búist við norðaustan 13 til 20 metrum á sekúndu og snörpum vindhviðum við fjöll. En þær eru sagðar geta farið yfir 25 metra á sekúndu undir Öræfajökli og í Mýrdalnum. Þar geti einnig skapast varasöm akstursskilyrði og þá sérstaklega fyrir bíla með aftanívagna.

Útlit er fyrir að vind taki að lægja í fyrramálið.

„Það er lítils háttar rigning í dag og norðaustan strekkingur víða. Það bætir í úrkomuna í kvöld og rignir um allt land í nótt en styttir smám saman upp á morgun,“ sagði Haraldur.


Tengdar fréttir

Gular viðvaranir vegna hvassviðris

Veðurstofa Íslands hefur gefið út tvær gular viðvaranir vegna hvassviðris í kvöld og í nótt. Þær ná til Faxaflóa og Suðausturlands þar sem búist er við að vindkviður verði sterkar og að varasamt geti verið að keyra um svæðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×