Kris Jenner virðist sólgin í íslenskan fisk, en athafnakonan birti röð mynda af vörum frá íslenska fyrirtækinu Fisherman. Um er að ræða Lax frá Arctic fish, bleikju frá Tungusilungi og silung frá Hábrún og fleiri vörur að vestan, eins og segir í Facebook-færslu Fisherman.
„Tékk, Kardashians!“ stendur í færslu Fisherman en þar er skjáskot birt úr Instagram sögu hjá samfélagsmiðlastjörnunni og athafnakonunni Kris Jenner.

Jenner er ættmóðir Kardashian systranna, sem eru einna þekktastar fyrir raunveruleikaþættina Keeping up with the Kardashians, ýmis viðskiptaævintýri og ekki síst viðveru þeirra á samfélagsmiðlum.
Fisherman Iceland framleiðir vörulínuna Nordic Catch, sem Jenner auglýsti á Instagram, sem seld er í Los Angeles vestanhafs.
„Takk fyrir @nordiccatch!!!! Get ekki beðið þess að njóta #freshfromiceland,“ skrifar Jenner á Instagram. „Þetta er gullfallegt,“ skrifaði hún í annarri færslu.