Almenn ánægja ríkir um skertan opnunartíma skemmtistaða meðal þeirra gesta sem sóttu næturlíf miðborgarinnar í gærkvöld.
„Það var margt um manninn í miðborginni í gærkvöld þar sem fréttastofa var og spurði fólk hvað því þyki um skertan opnunartíma skemmtistaða.“
„Mér finnst þetta geggjað ég var að koma frá Danmörku en ég bý þar. Munurinn er sá að það er gott að fara snemma að sofa mér finnst þetta alveg frábært,“ sagði Karl Emil Karlsson.

Jónas Jónasson var á sama máli. „Byrja snemma, snemma heim.“
Þannig þú ert ánægður með þetta fyrirkomulag?
„Já mér finnst þetta ánægjulegt. Mér finnst algjör óþarfi að menn séu hérna til sex á morgnanna á einhverju djammi,“ sagði Jónas.
„Algjörlega, það má kannski vera opið aðeins lengur en ég meina opna fyrr og loka fyrr - allir sáttir,“ sagði Tanja Rán Einarsdóttir.

Breytir skertur opnunartími þínu mynstri í skemmtanalífinu?
„Já maður fer fyrr að sofa, væntanlega. Betra fyrir heilsuna. Við ættum að halda þessu áfram mér finnst þetta frábært,“ sagði Karl Emil.
Einhverjir væru þó til í að vera aðeins lengur úti á lífinu. „Það mætti vera opið svona einn til tveimur tímum lengur,“ sagði María.
Kristján Fannar Þorgrímsson kveðst sammála Maríu. „Bærinn mætti vera opinn til eitt að nóttu í minnsta lagi.“
„Nei ég myndi segja til svona tólf á miðnætti,“ sagði Ívar Skúli.
Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnarlæknis og um mánaðarmótin verður skemmtistöðum því heimilt að hafa opið til klukkan 24 á kvöldin.
Af öllum þeim sem fréttastofa ræddi við í gærkvöld var einungis einn sem vill lengja opnunartímann enn frekar.

„Ellefu eða fjögur, það er ekki eins og vírusinn mæti klukkan tólf á miðnætti,“ sagði Gauti.
„Jæja nú er klukkan orðin 23 og mega skemmtistaðir því ekki vera lengur opnir í kvöld. Hér fyrir aftan mig sjáum við fólk tínast út í nóttina.“
Eftir að skemmtistaðir lokuðu bar á því að fólk hópaði sig saman á götum bæjarins og voru flestir í leit að eftirpartýi á meðan aðrir voru komnir með nóg af næturlífinu þetta kvöldið.
„Ég ætla bara heim að sofa,“ sagði Tanja Rán.