Erlent

Fresta sýningu þáttar þar sem Fauci er sakaður um að þróa kórónuveiruna

Samúel Karl Ólason skrifar
Anthony Fauci segist hafa fengið fjölmargar morðhótanir að undanförnu.
Anthony Fauci segist hafa fengið fjölmargar morðhótanir að undanförnu. AP/Susan Walsh

Forsvarsmenn bandaríska fjölmiðlafyrirtækisins Sinclair Group hafa ákveðið að fresta útsendingu umdeilds þáttar um samsæriskenningu sem snýr að því að Anthony Fauci, einn helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna og yfirmaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, hafi komið að þróun nýju kórónuveirunnar.

Stefnt er að því að sýna þáttinn um næstu helgi eftir að búið er að auka samhengi og bæta við fleiri sjónarmiðum, samkvæmt talsmanni Sinclair sem AP fréttaveitan ræddi við.

Sinclair er umdeilt fyrirtæki sem er mjög umfangsmikið í rekstri héraðsmiðla í Bandaríkjunum og rekur sjónvarpsstöðvar víðsvegar um landið. Til stóð að sýna umræddan þátt: „America This Week“ á öllum stöðvum fyrirtækisins um helgina. Þátturinn hafði áður verið birtur á netinu.

Í kjölfar þess var þátturinn harðlega gagnrýndur fyrir að ýta undir hættulegar samsæriskenningar.

Meðal annars átti að sýna viðtal við aðila sem komu að myndbandinu Plandemic, sem var í mikilli dreifingu á samfélagsmiðlum fyrr í sumar. Það er framleitt af andstæðingum bóluefna og inniheldur fjölmargar rangfærslur og lygar um kórónuveiruna og heimsfaraldur hennar.

Myndbandið var að endingu fjarlægt af vefjum Facebook, Google og Twitter, þó enn megi finna útgáfur þess þar.

Sérfræðingar segja rangt að veiran hafi verið þróuð á rannsóknarstofu. Veiran beri þess ummerki að hafa þróast í náttúrunni. Þrátt fyrir það var sjónarmiðum þeirra sem komu að Plandemic ekkert mótmælt í umræddum þætti.

Eftir þáttinn ræddi Eric Bolling, þáttastjórnandinn sem vann áður á Fox News, við sérfræðin sem sagði „engar vísbendingar um að Fauci hefði komið framleiðslu veirunnar“. Á meðan þátturinn var í gangi var hins vegar textaborði neðst á skjánum þar sem stóð: „Skapaði Fauci veiruna?“

Í fyrstu sagðist Sinclair ætla að sýna þáttinn víðsvegar um Bandaríkin og í yfirlýsingum frá fyrirtækinu var því haldið fram að málið sneri að málfrelsi. Fyrirtækið styddi ekki við þau sjónarmið sem fram kæmu en það styddi málfrelsi og umræðu um „umdeild sjónarmið“.

Fauci hefur á undanförnum mánuðum ítrekað verið gagnrýndur af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og stuðningsmönnum hans vegna ummæla hans um faraldurinn. Hann hefur verið talsmaður þess að auka inngrip í líf Bandaríkjamanna og setja á samkomu- og útgöngubann. Hann er sömuleiðis einn fárra embættismanna sem hafa þorað opinberlega að leiðrétta Trump.

Vegna hótana í hans garð þurfti fyrr í sumar að auka öryggisgæslu hans.

Hann var nýverið til viðtals í hlaðvarpsþætti þar sem hann ræddi meðal annars þær hótanir sem honum hefur borist. Fauci sagðist þar hafa fengið raunverulegar morðhótanir og að fjölskyldu hans hafi ítrekað verið hótað.

„Það er fólk sem er virkilega reitt og heldur að ég sé að hafa áhrif á líf þeirra því ég er að ýta undir heilbrigðisaðgerðir,“ sagði Fauci. Hann sagðist skilja að vissu leyti af hverju fólk væri ósátt við mögulegar aðgerðir sem hafi möguleg neikvæð áhrif. Þessi gífurlega reiði væri þó illskiljanleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×