Þrjár konur í Hvíta-Rússlandi hafa sameinast og leiða kosningabaráttu fyrir forsetakosningarnar í Hvíta-Rússlandi, sem haldnar verða í næsta mánuði. Framboðið er sagt breyta pólitísku landslagi landsins en markmið þeirra er að steypa Alexander Lúkasjenkó af stóli en hann hefur verið forseti í 25 ár.
Svetlana Tikhanovskaya leiðir framboðið en hún var upphaflega staðgengill eiginmanns síns Sergei Tikhanovsky, en hann var fangelsaður í kjölfar þess að hann tilkynnti framboð sitt til forseta og situr hann enn í fangelsi. Svetlana er sjálf vinsæll bloggari en yfirvöld hafa einnig reynt að koma í veg fyrir framboð hennar með því að fangelsa hana.
Hún er sögð hafa náð tökum á hlutverki forsetaframbjóðenda það sem á hefur liðið á framboðið en til að byrja með hafi hún verið frekar hikandi. „Hún hefur náð miklum tökum á hlutverkinu,“ sagði Maria Kolesnikova, kosningastjóri Tikhanovskaya, en hún var áður kosningastjóri Viktor Babariko sem einnig ætlaði að bjóða sig fram til forseta en hefur verið fangelsaður.
Sendi börnin úr landi vegna hótana
Óánægja Hvít-Rússa með Lúkasjenkó hefur farið stigvaxandi undanfarna mánuði en mikillar reiði má gæta vegna þess hvernig yfirvöld brugðust við kórónuveirufaraldrinum auk langvarandi reiði vegna mannréttindabrota og efnahagsástands í landinu. Lúkasjenkó hefur í forsetakosningunum bæði fangelsað mótframbjóðendur sína og stuðningsmenn þeirra.
Þá hefur Tikhanovskaya þurft að fórna ýmsu vegna forsetaframboðsins. Í síðustu viku var greint frá því að hún hafi sent börn sín úr landi til að tryggja öryggi þeirra en þá hafði hún næstum því verið neydd til að hætta við framboðið vegna hótana. Þá er eiginmaður hennar, sem eins og áður segir ætlaði að bjóða sig fram til forseta, enn á bak við lás og slá og hefur verið frá því í maí.
„Já, ég var hrædd í fyrstu,“ sagði hún í sjónvarpaðri ræðu. „Ég veit til hvaða ráða þessi ríkisstjórn er tilbúin að grípa til í von um að vernda eigin stöðu. Ég er hins vegar ekki lengur hrædd.“
„Samfélagið ekki tilbúið til að kjósa konu“
Veronika Tsepkalo, fyrrverandi starfsmaður Microsoft og kosningastjóri Valery Tsepkalo eiginmanns hennar, hefur einnig gengið til liðs við Tikhanovskaya og Kolesnikova. Hún var kosningastjóri eiginmanns síns sem hafði tilkynnt forsetaframboð en hann flúði til Moskvu með börn þeirra í síðustu viku eftir að hafa frétt af því að handtökutilskipun hefði verið gefin út á hendur honum.
Konurnar þrjár tilkynntu fyrr í mánuðinum að þær hygðust sameina krafta sína og vakti það mikla athygli. Konurnar hafa ítrekað talað um að þær geti, rétt eins og karlmenn, tekið þátt í stjórnmálum en Lúkasjenkó hefur í gegn um tíðina haldið því fram að stjórnmál ættu fyrst og fremst að vera vettvangur fyrir karlmenn.
„Stjórnarskráin okkar var ekki gerð fyrir konu,“ sagði Lúkasjenkó þegar hann talaði um framboð kvennanna. „Samfélag okkar er ekki tilbúið til að kjósa konu.“ Hann talaði einnig um þær sem „grey.“