Starfsmenn Krónunnar nýta nú helgina til að undirbúa sig undir samkomubann sem hefst á mánudag. Starfsmenn munu sjá til þess að ekki sé minna en tveggja metra bil á milli viðskiptavina í biðröðum auk þess sem passað verður upp á að aldrei fleiri en hundrað verði inni í einu.
Á mánudaginn hefst fjögurra vikna samkomubann og miðast bannið við hundrað manna samkomur. Þurfa hin ýmsu fyrirtæki að gera ráðstafanir. Þar á meðal matvöruverslanir en Krónan hefur nýtt helgina til undirbúnings.
„Við erum að undirbúa okkur undir mánudaginn. Það eru tilmæli um að það megi ekki koma fleiri en hundrað manns inn í verslun í einu og við munum byrja að telja inn strax á mánudag. við eigum ekki von á því að þurfa að hleypa inn í hollum það er svona helst í stærri verslunum okkar á háannatíma sem það gæti komið til,“ sagði Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar.
Ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar. Búið er að koma upp handspritti við inngang verslana auk plasthanska fyrir viðskiptavini.
„Allir okkar ferlar taka mið af tilmælum almannavarna þannig við erum núna búin að auka þrif gríðarlega. Við erum að þrífa alla snertifleti mjög oft. Sjálfsafgreiðslukassar eru þrifnir á hálftíma fresti og svo erum við að bjóða viðskiptavinum okkar upp á spritt og hanska við inngang og útgang og mælumst til þess að fólk noti þá,“ sagði Hjördís.
Þá hefur verið tekin ákvörðun um að setja lausar vörur í plast til að stemma stigum við smithættu.
„Opnunartíminn okkar er mjög rúmur. Í mörgun verslunum opnar klukkan 9 og er opið til 21. Verslanir okkar eru mjög rúmar og það auðveldar viðskiptavinum að halda fjarlægð og við mælumst til að þeir haldi tveggja metra fjarlægð,“ sagði Hjördís.