Innlent

Greina frá fyrstu niðurstöðum úr skimun ÍE á morgun

Eiður Þór Árnason skrifar
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, embætti landlæknis og Landspítali bjóða til upplýsingafundar á morgun klukkan 14.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, embætti landlæknis og Landspítali bjóða til upplýsingafundar á morgun klukkan 14. Vísir/Vilhelm

Von er á því að greint verði frá fyrstu niðurstöðum úr skimun Íslenskrar erfðagreiningar fyrir kórónuveirunni á morgun.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, sat fund með forsvarsmönnum fyrirtækisins í kvöld þar sem farið var yfir stöðuna. Þar segist Víðir hafa fengið jákvæðar fréttir.

„Við fáum tölurnar frá þeim um hádegi á morgun. Það gengur bara mjög vel hjá þeim,“ segir Víðir í samtali við Vísi.

Sjá einnig: Þúsundir skráðu sig í skimun og kerfið hrundi

Hann segir að greint verði frá fyrstu niðurstöðunum á upplýsingafundi almannavarna á morgun eða jafnvel fyrir það.

Ekki er búið að ljúka greiningu á öllum sýnunum sem hafa verið tekin frá því að skimunin hófst á fimmtudag en búið er að keyra ýmis samanburðarsýni.

Víðir segir að greining sýnanna sé nú komin á fulla ferð.

Sjá einnig: Guðni og Eliza mættu í skimun

Byrjað var að taka sýni úr þeim þúsundum Íslendinga sem bókuðu tíma í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu á fimmtudag í Turninum við Smáratorg í Kópavogi. 

Tólf þúsund manns höfðu boðað sig í skimun fyrir veirunni á laugardagsmorgun og er vonast til þess að starfsfólk fyrirtækisins nái að taka hátt í þúsund sýni á dag. 

Skimuninni er ætlað að kortleggja betur útbreiðslu veirunnar í íslensku samfélagi.


Tengdar fréttir

Tólf þúsund hafa bókað sýnatöku

Þúsundir Íslendinga bókuðu tíma í skimun eftir COVID-19 sjúkdómnum eftir að opnað var fyrir bókanir í gærkvöldi. Fljótlega þurfti að bæta við tímum vegna mikillar eftirspurnar.

Furða sig á að Turninn hafi verið valinn fyrir skimunarmiðstöð

Leigutakar í Turninum í Kópavogi voru órólegir þegar þeir fengu að vita með skömmum fyrirvara að Íslensk erfðagreining ætlaði að skima fyrir COVID-19 í byggingunni í dag. Eigandi Turnsins segist hafa verið í sambandi við sóttvarnalækni um að færa skimunina annað.

Guðni og Eliza mættu í skimun

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú voru á meðal þeirra sem mættu í skimun fyrir kórónuveirunni hjá Íslenskri erfðagreiningu í Turninum í Kópavogi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×