Innlent

Leiðbeiningar fyrir grímuskyldu: Grímurnar koma ekki í stað tveggja metra reglu

Sylvía Hall skrifar
Ekki er mælt með almennri notkun á almannafæri og er gríman óþörf ef fjarlægðarmörk eru virt.
Ekki er mælt með almennri notkun á almannafæri og er gríman óþörf ef fjarlægðarmörk eru virt. Vísir/Getty

Það er skylda að nota hlífðargrímur ef fólk getur ekki viðhaldið tveggja metra fjarlægðarmörkum þegar hin svokallaða tveggja metra regla tekur gildi að nýju á hádegi á morgun. Ekki er mælt með almennri notkun á almannafæri og er hún óþörf ef fjarlægðarmörk eru virt.

Þetta kemur fram í leiðbeiningum frá Embætti landlæknis um notkun á hlífðargrímum. Þar er jafnframt áréttað að hlífðargríma kemur aldrei í stað almennra sýkingavarna sem skal viðhafa; handhreinsun, almennt hreinlæti og þrif á snertiflötum.

Hlífðargrímurnar koma þó ekki í stað tveggja metra reglunnar.

Í leiðbeiningunum er farið yfir hvar skal nota grímurnar. Fólk skal nota hlífðargrímur í öllu áætlunarflugi, farþegaferjum ef ekki er hægt að virða fjarlægðarmörk og í öðrum almenningssamgöngum ef ekki eru gerðar ráðstafanir til þess að viðhalda fjarlægð milli einstaklinga.

„Sérstaklega er mikilvægt að nota grímu í rútum frá flugvelli eftir sýnatöku á landamærum og á lengri leiðum með hópferðabílum, en í innanbæjarsamgöngum þar sem ferð er gjarnan 15-30 mínútur eru það fyrst og fremst einstaklingar í áhættuhópum sem ættu að nota grímu,“ segir í leiðbeiningunum.

Þannig er ekki skylda að nota grímu í Strætó nema fyrirtækið ákveði að halda sig við þær reglur sem gefnar voru út í dag.

Einnota grímur skulu notaðar að hámarki í fjórar klukkustundir og þá skal henda grímunni í almennt sorp. Mikilvægt er að þvo hendur eða spritta eftir snertingu við grímuna. Einnig er hægt að nota margnota grímur úr taui en að lágmarki skal þvo þær daglega.

Hafið í huga:

  • Ekki er mælt með almennri grímunotkun á almannafæri
  • Rök og skítug gríma gerir ekkert gagn og getur aukið sýkingahættu
  • Einnota gríma sem notuð er oftar en einu sinni gerir ekkert gagn og getur aukið
  • sýkingarhættu
  • Hlífðargríma sem hylur ekki bæði nef og munn gerir ekkert gagn
  • Hlífðargríma sem er höfð á enni eða undir höku gerir ekkert gagn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×