Erlent

Mót­mæla að­gerðum stjórn­valda í bar­áttunni við veiruna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þúsundir taka þátt í mótmælunum í Berlín.
Þúsundir taka þátt í mótmælunum í Berlín. FELIPE TRUEBA/EPA

Þúsundir Berlínarbúa mótmæla nú takmörkunum og reglum sem þýsk stjórnvöld hafa komið á til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar í Þýskalandi. Mótmælendurnir telja aðgerðir stjórnvalda, svo sem grímuskyldu, vera brot á borgaralegum réttindum sínum og frelsi.

Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins. Þýskalandi tókst betur til en mörgum öðrum Evrópuríkjum að bregðast við kórónuveirufaraldrinum en undanfarið hefur borið á því að fleiri séu teknir að smitast. Í gær greindust yfir 900 einstaklingar með veiruna í landinu og sjö létust.

Samkvæmt tölum yfirvalda er talið að um 15.000 manns taki þátt í mótmælunum, sem mótmælendur sjálfir kalla „Frelsisdaginn.“ Meðal slagorða sem sjá má á skiltum mótmælenda eru „Kóróna, gabb“ og „Það er verið að neyða okkur til að nota múl.“ Seinna slagorðið vísar til þess að fólk skuli bera grímu á almannafæri.

Samkvæmt BBC eru hægri-öfgamenn og fylgjendur samsæriskenninga sem trúa ekki á tilvist kórónuveirunnar á meðal mótmælenda, þó þar séu einnig borgarar sem séu einfaldlega mótfallnir aðgerðum stjórnvalda til þess að hefta útbreiðslu veirunnar.

Þá segir að fáir mótmælendanna beri grímur eða hugi að reglum um fjarlægðartakmarkanir sem settar hafa verið.

„Krafa okkur er afturhvarf til lýðræðis. Burt með þessi lög sem sett hafa verið á okkur, burt með grímurnar sem gera okkur að þrælum,“ hefur BBC eftir konu einni sem var viðstödd mótmælin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×