Erlent

Lýsa yfir neyðarástandi vegna faraldursins í Viktoríuríki

Kjartan Kjartansson skrifar
Í Melbourne og Viktoríu glíma yfirvöld nú meðal annars við hópsýkningar á öldrunarheimilum. Aldrei hafa fleiri ný smit greinst daglega þar en í síðustu viku.
Í Melbourne og Viktoríu glíma yfirvöld nú meðal annars við hópsýkningar á öldrunarheimilum. Aldrei hafa fleiri ný smit greinst daglega þar en í síðustu viku. Vísir/EPA

Yfirvöld í Viktoríu, næstfjölmennasta ríki Ástralíu, hafa lýst yfir neyðarástandi og komi á útgöngubanni í höfuðborginni Melbourne til þess að kveða niður kórónuveirufaraldurinn sem fer versnandi aftur eins og víðar í heiminum. Ný met yfir fjölda daglegra nýsmita voru slegin í borginni í síðustu viku.

Útgöngubannið gildir frá klukkan 20:00 að kvöldi til 5:00 um morgun og hefst í kvöld. Þá mega fimm milljónir íbúa Melbourne aðeins yfirgefa heimili sín til að fara í vinnu eða njóta umönnunar, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Takmarkanir höfðu þegar verið hertar og fólki sagt að halda sig heima eftir að kórónuveirusmitum byrjaði að fjölga aftur. Skólar mega aðeins bjóða upp á fjarkennslu frá og með miðvikudeginum. Stórmarkaðir verða áfram opnir og veitingastaðir mega áfram bjóða upp á heimsendingu og að viðskiptavinir taki pantanir með sér.

Tilkynnt var um 671 nýtt smit í Viktoríu í dag og sjö dauðsföll. Samfélagssmitum hefur fjölgað og þá hefur ekki tekist að rekja uppruna margra smita. Nýju takmarkanirnar verða í gildi í sex vikur.

Scott Morrison, forsætisráðherra, styður aðgerðirnar í Viktoríu og segir þær nauðsynlegar til að koma böndum á faraldurinn.

„Við erum öll í þessu saman og við komumst í gegnum þetta,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×