Tveir bandarískir geimfarar sem voru þeir fyrstu til að fara út í geim með einkafyrirtækinu SpaceX eru lagðir af stað heim til jarðar frá Alþjóðlegu geimstöðinni eftir 62 daga í geimnum. Áætluð lending er klukkan 18:40 að íslenskum tíma.
Lendingarstaður þeirra Doug Hurley og Bob Behnken verður í Mexíkóflóa utan við vesturströnd Flórída, fjarri leið fellibyljarins Isaiasar sem stefnir á austurströnd ríkisins, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Ferð tvímenninganna er söguleg því þetta er í fyrsta skipti sem menn fara út í geim með einkafyrirtæki. Þetta er jafnframt fyrsta bandaríska mannaða geimferðin frá því að síðasta geimskutlan lenti árið 2011.
Hér að neðan má fylgjast með beinni útsendingu NASA.