Þúsundum hefur verið gert að yfirgefa heimili sín í dag vegna gróðurelda sem nú geisa austur af borginni Los Angeles í Kaliforníu. Eldarnir mögnuðust gríðarlega að umfangi í dag og hafa slökkviliðsmenn átt erfitt um vik í sumarhitanum.
Eldarnir hafa hlotið nafnið „Eplaeldurinn“ (e. Apple fire). Þeir loga í Cherry-dal í Riverside- og San Bernardino-sýslum og hafa lagt undir sig um 60 ferkílómetra á svæðinu. Lögregla rannsakar nú upptök eldanna.
Engum sögum hefur farið af slysum á fólki en að minnsta kosti eitt íbúðarhús og tvær byggingar til viðbótar hafa orðið eldinum að bráð. Alls hafa um átta þúsund íbúar Riverside-sýslu þurft að yfirgefa heimili sín vegna eldanna.