Erlent

Héraðsstjóri sagði sprenginguna minna á Hírósíma og Nagasakí

Andri Eysteinsson skrifar
Sprengingin varð á fjórða tímanum í dag.
Sprengingin varð á fjórða tímanum í dag. Getty/Marwan Naamani

Héraðsstjóri Beirút-héraðs, þar sem samnefnda höfuðborg Líbanon er að finna, segir atburði dagsins vera þjóðarharmleik og sagði sprenginguna svipa til þeirra í Hiróshíma og Nagasakí árið 1945.

Marwan Abboud ræddi við Sky News Arabia á vettvangi sprengingarinnar öflugu sem varð á hafnarsvæði Beirút á fjórða tímanum í dag. Abboud sagði að ekki væri vitað um afdrif tíu slökkviliðsmanna sem störfuðu á vettvangi. 

„Ég hef aldrei nokkurn tímann upplifað jafn mikla eyðileggingu. Þetta er þjóðarharmleikur og stórslys fyrir Líbanon. Ég veit ekki hvernig við munum jafna okkur eftir þetta,“ sagði Abboud sem grét þegar hann bað líbönsku þjóðina að standa saman. „Við erum sterk og munum áfram vera sterk“ sagði Abboud.

Hundruð manna eru særðir og að minnsta kosti tíu eru látnir eftir sprengingun. Ekki liggur yfir hvers vegna sprengingin varð en líbanskur hershöfðingi, Abbas Ibrahim, sagði að eldur hafi borist í vöruskemmu sem innihélt sprengifimt efni sem hafi verið gert upptækt. Hann hafnaði vangaveltum um ísraelska árás og að eldur hafi borist í flugelda.

AP greinir þá frá því að yfir 25 séu látnir og yfir 2.500 manns séu særðir eftir sprenginguna.

Höfnin, þar sem sprengingin varð, hefur verið lokuð undanfarna daga vegna kórónuveirufaraldursins. Vinna á staðnum hófst þó að nýju í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×