Erlent

Kínverjar mótmæla heimsókn ráðherra til Taívan

Samúel Karl Ólason skrifar
Alex Azar, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, verður hæst setti embættismaður ríkisins sem heimsótt hefur Taívan frá 1979.
Alex Azar, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, verður hæst setti embættismaður ríkisins sem heimsótt hefur Taívan frá 1979. AP/Jacquelyn Martin

Alex Azar, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, mun heimsækja Taívan á næstu dögum. Hann verður þá hæst setti embættismaður Bandaríkjanna sem heimsækir landið í rúma fjóra áratugi en yfirvöld í Kína hafa þegar brugðist reið við.

Bandaríkin slitu formlegum tengslum við Taívan árið 1979, að kröfu Kínverja, en hafa þrátt fyrir það haldið umfangsmiklum óformlegum tengslum við ríkið og útvega Taívan meðal annars vopn.

Kína gerir tilkall til Taívan og lítur á eyjuna sem hluta af lýðveldinu. Yfirvöld í Kína hafa ítrekað hótað því að sameina ríkin á nýjan leik með valdi.

Í heimsókn sinni mun Azar meðal annars funda með Tsai Ing-wen, forseta Taívan, og samkvæmt American Institute in Taiwan, sem er í raun óopinbert sendiráð Bandaríkjanna í Taívan, munu þau ræða heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar og fleiri málefni, samkvæmt tilkynningu frá AIT.

„Taívan hefur verið fyrirmynd varðandi gegnsæi og alþjóðasamvinnu í Covid-19 faraldrinum og löngu fyrir hann,“ segir Azar í tilkynningu. Hann sagðist hlakka til að ítreka stuðning Donald Trump gagnvart Taívan og undirstrika þá sameiginlegu trú ríkjanna að frjáls samfélög séu besta leiði til að verja heilsu íbúa.

Utanríkisráðuneyti Kína hefur þegar fordæmt heimsóknina og hefur lagt fram formleg mótmæli í Washington DC. Reuters hefur eftir Wang Wenbin, talsmanni ráðuneytisins, að málefni Taívan sé gríðarlega mikilvægt í samskiptum Bandaríkjanna og Kína og þar að auki viðkvæmt.

Vegna þrýstings frá Kína hefur Taívan verið meinuð aðkoma að alþjóðlegum stofnunum og þar á meðal Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO).

Á undanförnum mánuðum hafa yfirvöld í Kína þar að auki beitt þau fáu ríki sem hafa átt í formlegum samskiptum við Taívan gífurlegum þrýstingi. Flest þeirra ríkja hafa nú slitið þeim samskiptum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×