Erlent

Starship flogið á loft og lent aftur

Samúel Karl Ólason skrifar
Starship á flugi yfir strönd Texas í Bandaríkjunum.
Starship á flugi yfir strönd Texas í Bandaríkjunum. Vísir/SpaceX

Starfsmönnum fyrirtækisins SpaceX tókst í gærkvöldi að fljúga frumgerð að Starship geimfarinu á loft og lenda því aftur. Geimfarið fór einungis í 150 metra hæð áður en það lenti og tók flugið einungis 45 sekúndur. Eftir að SpaceX varð fyrsta einkafyrirtækið til að skjóta mönnum út í geim í síðasta mánuði var ákvörðun tekin um að setja þróun Starship í forgang.

Geimfarinu er ætlað að flytja allt að hundrað menn og birgðir til tunglsins og Mars. Frumgerðin sem um ræðir er sú fimmta sem SpaceX þróar en hinar hafa allar sprungið í loft upp.

Fyrirtækið hefur markað sér mikla sérstöðu með því að þróa áreiðanlegar eldflaugar sem bera farm á braut um jörðu, snúa aftur við og lenda aftur. Þá er hægt að nota eldflaugarnar á nýjan leik við annað geimskot, eins og SpaceX hefur margsinnis gert.

Þannig hefur SpaceX tekist að framkvæma geimskot með mun minni kostnaði en önnur fyrirtæki og stofnanir, þar sem eldflaugar eru iðulega látnar brenna upp í gufuhvolfinu og/eða hrapa í hafið.

Elon Musk, stofnandi SpaceX, segir á Twitter að þróun Starship hafi náð auknum hraða og að til standi að framkvæma frekari prófanir á næstunni. Þróunin er þó langt á eftir þeirri áætlun sem Musk setti fyrirtækinu í september. Þá sagði Musk í fyrra að Starship ætti að fljúga innan nokkurra mánaða og að geimfarið ætti að ná á braut jörðu á hálfu ári

Hann ítrekaði þó að sú áætlun væri mjög svo bjartsýn. Jafnvel galin.

Eins og sjá má á myndbandinu hér að ofan virðist sem að flugferðin í gær hafi ekki gengið snurðulaust fyrir sig. Í upphafi virðist brak takast á loft og þegar geimfarið lendir virðist sem að eldur hafi kviknaði í vélinni. SpaceX hefur þó lítið sagt um tilraunaflugið í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×