Nokkrir einstaklingar sem tengjast Repúblikanaflokknum hafa lagt Kanye West lið til að koma honum á kjörseðilinn sem víðast fyrir forsetakosningarnar í haust. Hugsanlegt er talið að repúblikanar telji að framboð West gæti hjálpað Donald Trump forseta að ná endurkjöri.
West tilkynnti óvænt um framboð sitt til forseta í sumar en þá var framboðsfrestur þegar liðinn í nokkrum ríkjum. Vinir og vandamenn West, þar á meðal Kim Kardashian, eiginkona hans, hafa lýst áhyggjum af geðrænu ástandi hans en hann hefur glímt við geðhvörf. Hélt West meðal annars furðulegan fund með stuðningsmönnum þar sem hann var í töluverðu tilfinningalegu uppnámi, grét, öskraði og skipaði fólki að klappa ekki.
New York Times segir að einstaklingar sem hafa unnið fyrir Repúblikanaflokkinn hafi meðal annars safnað undirskriftum til að fá framboð West skráð í nokkrum ríkjum. Einn þeirra var handtekinn vegna gruns um kosningasvik þegar hann vann fyrir flokkinn í Kaliforníu árið 2008.
Eftir að West tilkynnti um framboð sitt áframtísti Trump forseti tísti um að tónlistarmaðurinn gæti mögulega stolið atkvæðum frá Joe Biden, væntanlegum forsetaframbjóðanda demókrata.