Erlent

Ringulreið á bandarískum flugvöllum vegna ferðabannsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Ferðalangar hafa þurft að bíða í allt að fjórar klukkustundir eftir því að komast í gegnum tollgæslu á bandarískum flugvöllum eftir að skimanir fyrir kórónuveiru hófust þar. Myndin er tekin úr röð á Fort Worth-flugvellinum í Dallas í Texas í gær. 
Ferðalangar hafa þurft að bíða í allt að fjórar klukkustundir eftir því að komast í gegnum tollgæslu á bandarískum flugvöllum eftir að skimanir fyrir kórónuveiru hófust þar. Myndin er tekin úr röð á Fort Worth-flugvellinum í Dallas í Texas í gær.  AP/Austin Boschen

Langar raðir hafa myndast á flugvöllum í Bandaríkjunum vegna skimunar fyrir kórónuveirunni sem hófust þegar verulegar takmarkanir á ferðalög frá Evrópu tóku gildi í fyrrinótt. Kannað er hvort flugfarþegar sýni einkenni og þeir spurðir út í sjúkrasögu sína áður en þeim er hleypt inn í landið.

Ferðalög frá Evrópuríkjum sem tilheyra Schengen-svæðinu til Bandaríkjanna voru bönnuð frá og með aðfaranótt laugardags. Aðeins bandarískir ríkisborgarar, þeir sem eru með varanlegt dvalarleyfi og nánustu ættingjar þeirra fá að koma inn í landið frá þessum ríkjum. Bretland og Írland, sem voru upphaflega undanskilin banninu, munu sæta sömu takmörkunum frá og með þriðjudeginum.

Skimun fyrir kórónuveirunni sem var tekin upp á þeim þrettán flugvöllum sem flugumferð frá Evrópuríkjunum er beint til í Bandaríkjunum hefur valdið miklum töfum við landamæraeftirlit, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC

JB Pritzker, ríkisstjóri Illinois, sagði tafirnar á O'Hare-flugvelli í Chicago óásættanlegar í Twitter-færslu sem hann beindi að Donald Trump forseta og Mike Pence varaforseta í nótt.

Lýðheilsusérfræðingar hafa varað við því að mannmergð á flugvöllum geti mögulega leitt til enn frekari útbreiðslu veirunnar. Nú þegar hafa fleiri en 2.700 smit verið staðfest í Bandaríkjunum og 54 látið lífið. Yfirvöld hafa sætt harðri gagnrýni fyrir að draga lappirnar í skimunum fyrir veirunni.

Trump forseti lýsti yfir neyðarástandi vegna heimsfaraldursins á föstudag.

Fækka langferðum um 75% vegna hrapandi eftirspurnar

Ferðabann Bandaríkjastjórnar á mörg Evrópuríki hefur valdið miklum röskunum á áætlunum flugfélaga. American Airlines ætlar að hætta nær öllum lengri millilandaflugferðum frá og með morgundeginum vegna minnkandi eftirspurnar og ferðatakmarkana í fjölda ríkja. Dregið verður úr ferðum um 75% miðað við sama tímabil í fyrra alveg þangað til í maí.

Einnig áætlar flugfélagið að það muni draga úr framboði á ferðum innanlands í Bandaríkjunum um fimmtung í apríl. Framboðið í maí verður minnkað um 30% frá sama mánuði í fyrra, að sögn Reuters-fréttastofunnar.


Tengdar fréttir

Ferðabann til Bandaríkjanna komið í gildi

Íbúum 26 Evrópulanda innan Schengen-svæðisins, þar á meðal Íslands, er nú bannað að ferðast til Bandaríkjanna næstu þrjátíu dagana eftir að ferðabann Donalds Trump Bandaríkjaforseta vegna kórónuveiruheimsfaraldursins tók gildi í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×