Það er innan við mánuður í að enska landsliðið mætir í Laugardalinn og spilar við íslenska landsliðið í Þjóðadeildinni. Laugardalsvöllur var í fullum blóma í mars en út af kórónuveirunni var enginn leikur þá. Síðan þá hefur völlurinn fengið frí og engir landsleikir hafa farið fram á honum í ár.
Þeir sem horfa yfir Laugardalsvöllinn í dag bregður örugglega í brún. Það er nefnilega búið að grafa fjórar holur þvert yfir leikvöllinn.
Knattspyrnusamband Íslands segir frá þessum nýju framkvæmdum á fésbókarsíðu sinni í dag. Þar kemur fram að unnið sé nú hörðum höndum að uppsetningu á vökvunarkerfi af fullkomnustu gerð í Laugardalsvelli.
Kerfið er framleitt af Rainbird, sem er í hópi þriggja stærstu vökvunarkerfis-framleiðenda í heiminum.
Nýja kerfið mun gjörbreyta starfi vallarstjóra sem þá getur vökvað nákvæmlega eftir þörf grassins. Rakamælar í vellinum segja til um hve mikil gufun (hve mikið grasið "drekkur") og útgufun er á hverjum degi.
Með þeim upplýsingum getur kerfið bætt við því sem þarf, sem kemur í veg fyrir of mikla eða litla vökvun. Með þessu myndast jafnari aðstæður á vellinum sem er mikilvægt fyrir öryggi leikmanna.
Einnig verður hægt að bleyta í yfirborði vallarins rétt fyrir leik og í hálfleik með mun meiri nákvæmni. Bleytan lætur knöttinn skauta betur á yfirborðinu sem bíður mögulega upp á hraðari leik.
Gert er ráð fyrir því að kerfið verði tilbúið fyrir 20. ágúst, sem er nægur tími til að gera völlinn sem glæsilegastan fyrir leik Íslands og Englands þann 5. september.