Erlent

Utan­ríkis­ráð­herrann gekk á Rússa um meint verð­launa­fé í Afgan­istan

Kjartan Kjartansson skrifar
Meint verðlaunafé sem Rússar eiga að hafa heitið talibönum fyrir að drepa bandaríska hermenn kom til tals í símtali Mike Pompeo (t.h.) og Sergei Lavrov (t.v.) í júlí.
Meint verðlaunafé sem Rússar eiga að hafa heitið talibönum fyrir að drepa bandaríska hermenn kom til tals í símtali Mike Pompeo (t.h.) og Sergei Lavrov (t.v.) í júlí. Vísir/EPA

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er sagður hafa varað rússneskan starfsbróður sinn eindregið við því að greiða talibönum verðlaunafé fyrir að drepa bandaríska hermenn í Afganistan. Það gerði Pompeo þrátt fyrir að Donald Trump forseti haldi því fram að enginn fótur sé fyrir fréttum af verðlaunafénu.

Bandaríska leyniþjónustan telur vísbendingar um að rússneska leyniþjónustan hafi heitið, og í sumum tilfellum greitt, vígamönnum talibana verðlaunafé fyrir að drepa bandaríska og aðra vestræna hermenn í Afganistan. Þegar New York Times greindi frá því í júní kom fram að upplýsingar um mat leyniþjónustunnar hefði komið fram í daglegum leyniþjónustuskýrslum til Trump forseta. Hann hefur þvertekið fyrir það.

Ítrekað hefur Trump gert lítið úr fréttunum af verðlaunafénu og fullyrt að þær væru „gabb“. Í viðtali við fréttamanna Axios sem var birt í vikunni sagðist Trump aldrei hafa rætt verðlaunaféð í samskiptum sínum við Vladímír Pútín Rússlandsforseta eftir að greint var frá tilvist þeirra í sumar. Hélt forsetinn því fram að „margir“, sem hann tilgreindi ekki frekar, segðu að fréttir af verðlaunafénu væru „fals“.

Nú segir New York Times að Pompeo utanríkisráðherra hafi tekið verðlaunaféð upp í símtali við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, þegar þeir ræddu um mögulegan fund fastaríkjanna fimm í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna 13. júlí.

Pompeo hafi ekki talað beint um leynilegt verðlaunafé heldur gert Lavrov ljóst að Bandaríkjastjórn væri algerlega mótfallin greiðslum af því tagi. Fram að þessu hefur Pompeo forðast að svara beint spurningum um vitneskju leyniþjónustunnar um verðlaunaféð. New York Times segir að hann og ráðuneyti hans hafi gætt þess að opinbera ekki möguleg viðbrögð við aðgerðum Rússa, mögulega vegna þess að upplýsingarnar séu leynilegar en einnig hugsanlega til þess að forðast reiði Trump forseta.


Tengdar fréttir

Hefur aldrei rætt við Pútín um verðlaunaféð

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur að eigin sögn ekki rætt það að Rússar hafi boðið Talibönum verðlaunafé fyrir að fella Bandaríska hermenn í Afganistan við Vladimir Pútín, forseta Rússlands.

Trump segir fregnir af verðlaunafé Rússa vera rangar

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist aldrei hafa heyrt af því að leyniþjónusta herafla Bandaríkjanna hafi boðið vígamönnum Talibana og annarra vígahópa verðlaun fyrir að fella bandaríska og breska hermenn í Afganistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×