Innlent

Fimm­tán af 24 veitinga­stöðum fram­fylgdu ekki sótt­varna­reglum

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla að störfum í miðborg Reykjavík. Myndin er úr safni.
Lögregla að störfum í miðborg Reykjavík. Myndin er úr safni. Kolbeinn Tumi

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu fór inn á 24 veitinga- og skemmtistaði í gær og í fram á kvöld í þeim tilgangi að fylgja eftir reglum um sóttvarnir, fjöldatakmörkun og tveggja metra reglunni. Af þeim stöðum voru fimmtán staðir sem ekki voru að fylgja reglum þannig að viðunandi væri.

Þetta kemur fram í skeyti frá lögreglunni. Segir að sér í lagi hafi fjöldi gesta á stöðunum oft verið slíkur að ekki hafi verið unnt að tryggja tveggja metra bil á milli manna. Sums staðar hafi ekki verið þverfótað vegna gestafjölda – bæði innan staðanna og utan.

„Eigendum og forsvarsmönnum var veitt tiltal eftir atvikum og þeim leiðbeint um hvað betur mætti fara. Lögreglan lítur þetta alvarlegum augum í ljósi aðstæðna og því er til skoðunar að grípa til hertra aðgerða, þar með talið beitingu sekta, til að sporna gegn brotum á sóttvarnarreglum,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að tveimur veitingastöðum hafi verið lokað þar sem leyfi hafi ekki verið í lagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×