Innlent

Starfsmaður á Hömrum með staðfest kórónuveirusmit

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Starfsmaðurinn sem um ræðir starfar á Hömrum, hjúkrunarheimili sem rekið er af Eir.
Starfsmaðurinn sem um ræðir starfar á Hömrum, hjúkrunarheimili sem rekið er af Eir. Vísir/Vilhelm

Starfsmaður hjá hjúkrunarheimilinu Hömrum, sem rekið er af hjúkrunarheimilinu Eir, hefur greinst með kórónuveiruna og hafði starfsmaðurinn mætt til vinnu áður en hann greindist. Deildin sem umræddur starfsmaður vinnur á hefur verið sett í sóttkví og ákvörðun var tekin um að loka Hömrum í gærkvöldi.

Sigurður Rúnar Sigurjónsson, forstjóri Eirar, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. 

Kristín Högnadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunarsviðs Eirar, segir starfsmanninn hafa mætt til vinnu í stuttan tíma áður en hann hélt heim eftir að hafa fengið að vita að náinn ættingi væri með Covid-19 sjúkdóminn. „Hún vann í tvo og hálfan tíma, þá hafði hún fengið upplýsingar um að náinn ættingi hefði verið með staðfest smit, þannig að hún fór úr vinnunni og fór sjálf í sýnatöku og reynist jákvæð,“ segir Kristín.

„Einingin sem hún vann á í þessa tvo og hálfa tíma er í sóttkví,“ segir Kristín. Starfsmaðurinn sinnti aðeins örfáum íbúum á deildinni en á henni búa tíu manns.

Deildin er því í sóttkví og sér starfsfólk er á deildinni. „Við förum eftir öllum þeim leiðbeiningum sem við þekkjum og sú deild er þá lokuð fyrir allri umgengni og við ákváðum í gærkvöldi að loka heimilinu, það búa þarna þrjátíu og þrír íbúar og til að minnka ágang þá var tekin ákvörðun um að loka heimilinu á meðan við erum í þessari óvissu.“

Þá verður tekin ákvörðun í dag hverjir á deildinni þurfi að fara í sýnatöku. „Það kemur læknir í dag og það verður tekin ákvörðun um hverjir fara í sýnatöku sem voru næst þessum starfsmanni,“ segir Kristín.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×