Þýskur karlmaður lést í dag, fjórum árum eftir að samstarfsmaður hans eitraði fyrir honum.
Maðurinn, sem var 26 ára þegar hann lést, hafði legið í dái frá því eitrað var fyrir honum. Sá er það gerði er 57 ára gamall karlmaður, sem í erlendum fjölmiðlum hefur verið kallaður Klaus O. Ekki hefur verið greint frá fullu nafni hans.
Klaus O var sakaður um að hafa blandað kvikasilfri og öðrum efnum við mat samstarfsfólks síns, með þeim afleiðingum að fyrrnefndur maður, sem nú er látinn, féll í dá og tveir aðrir hlutu alvarlegan lifrarskaða.
Klaus var síðan handtekinn í maí árið 2018 þegar myndbandsupptökur sýndu hann dreifa dufti, sem síðar reyndist lífshættulegt, yfir samlokur samstarfsfólks síns í þýska bænum Schloß Holte-Stukenbrock.
Í mars síðastliðnum var Klaus síðan dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir tilraun til manndráps. Ekki liggur fyrir hvort dómi yfir honum verður breytt í ljósi þess að einn er nú látinn af hans völdum.

