Skapari bandarísku sjónvarpsþáttanna Ugly Betty, Silvio Horta, er látinn, 45 ára að aldri. Umboðsmaður Horta staðfestir þetta í samtali við bandaríska fjölmiðla.
Leikkonan America Ferrera, sem fór með hlutverk Betty í þáttunum, segist vera í áfalli og miður sín vegna fregnanna af láti handritshöfundarins og framleiðandans. Hann fannst látinn í Miami í gær.
Alls voru gerðar fjórar þáttaraðir af Ugly Betty á árunum 2006 til 2010, en þeir byggðu á kólumbísku þáttunum Yo soy Betty, la fea.
Þættirnir fjölluðu um hina barnslegu Betty Suarez, mexíkósk-bandarískri blaðakonu sem tekur við starfi hjá tískutímariti í New York.
Ferrera vann bæði til Golden Globe og Emmy-verðlauna fyrir frammistöðu sína í þáttunum.
Hinn kúbansk-bandaríski Silvio Horta fæddist í Miami og stundaði kvikmyndanám í New York. Hann sló í gegn árið 1998 fyrir handrit sitt að hryllingsmyndinni Urban Legend.