Innlent

Vetrarfærð í flestum landshlutum og vegum lokað vegna veðurs

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Suðurlandsvegi en Vegagerðin hefur lýst yfir óvissustigi er varðar Hellisheiði og Þrengsli.
Frá Suðurlandsvegi en Vegagerðin hefur lýst yfir óvissustigi er varðar Hellisheiði og Þrengsli. vísir/vilhelm

Vetrarfærð er í flestum landshlutum og leiðinleg veðurspá seinni part dags um land allt.

Vegum um Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði, Klettháls og Víkurskarð hefur verið lokað fyrir umferð vegna óveðursins. Þá hefur Vegagerðin hefur lýst yfir óvissustigi er varðar Hellisheiði og Þrengsli.

Gular veðurviðvaranir eru í gildi fyrir land allt í kvöld. Það gengur í suðvestan 18 til 25 metra á sekúndu með éljum um landið sunnanvert en 20 til 28 metra á sekúndu á Norður- og Austurlandi í kvöld.

Gera má ráð fyrir áframhaldandi éljagangi og að það verði afar hvasst í nótt. Hvassviðrið hefur haft áhrif á flugsamgöngur og þá hefur Herjólfur fellt niður seinni ferðina í dag til Þorlákshafnar sem og fyrri ferðina á morgun til að tryggja öryggi farþega og áhafnar.

Veðurhorfur á landinu:

Minnkandi norðaustanátt með snjókomu á Vestfjörðum, en suðvestan 18-25 m/s með éljum um landið S-vert. Gengur í suðvestan 20-28 á N- og A-landi í kvöld.

Vestan 18-25 á morgun, en suðvestan 13-20 annað kvöld. Víða él, en bjartviðri A-lands. Frost yfirleitt 0 til 5 stig.

Á fimmtudag:

Suðvestan 15-23 m/s og él, en heldur hægari og léttskýjað A-lands. Frost 0 til 7 stig.

Á föstudag:

Snýst í austlæga átt með snjókomu víða. Rigning eða slydda þegar kemur fram á daginn S- og A-lands og hlánar þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×