Bandarísk yfirvöld rannsaka nú kvartanir um að Tesla-bifreiðar hafi skyndilega tekið af stað og rekist á allt frá pálmatrjám og veggjum til kyrrstæðra bíla og brunahana. Á annað hundrað kvartanir hafa borist umferðaröryggisyfirvöldum.
Washington Post segir að 52 hafi slasast í tilvikum þar sem Tesla-bílar virðast hafa gefið sjálfar í og rekist á hluti. Einni kvörtun fylgdi mynd af Tesla Model S-bifreið sem hafði ekið í gegnum vegg á íbúðarhúsi eftir að eigandinn reyndi að leggja honum í bílskúr.
Ekki áttu öll atvikin sér stað þegar verið var að leggja bíl eða hann var kyrrstæður. Vitni að tíu bíla árekstri á hraðbraut í Oregon-ríki segir að Tesla Model 3 sem ekið var á miklum hraða hafi virst „stjórnlaus“.
Rannsókn umferðaröryggisstofnunarinnar NHTSA beinist að Model S, Model 3 og Model X sem framleiddir voru á árunum 2012 til 2019. Tesla svaraði ekki fyrirspurn Washington Post vegna kvartananna.