Telja má mildi að enginn hafi slasast alvarlega þegar bílaleigubíll fór útaf hringveginum í Skjónugili um einn kílómetra fyrir norðan Vík í Mýrdal síðdegis í gær. Þrír erlendir ferðamenn voru í bílnum og sluppu allir ómeiddir samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Vík.
Útafaksturinn virðist hafa verið mjúkur en myrkur var skollið á um fimmleytið þegar bíllinn fór út af veginum. Töluverðar skemmdir urðu á bílnum.
Þórir Kjartansson, íbúi í Vík sem er hluti af hópnum Vinir vegfarandans sem talað hafa fyrir láglendisveg og göngum í gegnum Reynisfjall, segir um þekktan stað að ræða fyrir afleitar vindáttir.

„Það er ótrúlegt að engin hafi meiðst því þetta er heilmikið fall,“ segir Þórir sem er uppalinn í Vík. Ljóst er að hálka hefur verið til viðbótar við snjó og hvassvirði.
Hann fagnar því að láglendisvegurinn og göngin séu komin á samgönguáætlun, þ.e. heimild til að gera framkvæmdina í einkaframkvæmd. Um umdeilda framkvæmd er að ræða og sýnist sitt hverjum í sveitinni. Sveitastjórinn tjáði sig um málið í pistli á Vísi fyrir ári.
Vegurinn og göngin myndu stytta hringveginn um þrjá kílómetra en auk þess myndi það stytta leið ferðamanna í Reynisfjöru og Dyrhólaey töluvert.