Innlent

Búið að opna fyrir umferð um Hellisheiði á ný

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Veður var mjög slæmt á vettvangi við afleggjarann að Hellisheiðarvirkjun.
Veður var mjög slæmt á vettvangi við afleggjarann að Hellisheiðarvirkjun. Vísir/baldur

Búið er að opna fyrir umferð um Hellisheiði á ný eftir að veginum var lokað þegar tvær rútur lentu út af á níunda tímanum í morgun. Veður var mjög slæmt á vettvangi, líkt og víðar á landinu í dag.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni frá því um rétt fyrir klukkan eitt kemur fram að Hellisheiði hafi aftur verið opnuð. Vegfarendum hafði verið bent um að fara hjáleið um Þrengsli á meðan viðbragðsaðilar athöfnuðu sig á vettvangi.

Alls voru 38 ferðamenn í rútunum tveimur. Engan sakaði í óhappinu, hvers tildrög hafa enn ekki verið staðfest. Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Selfossi sagði þó í samtali við fréttastofu í morgun að veðurfar hafi „örugglega spilað þarna inn í“. Hvasst var á vettvangi og mikið kóf, að sögn Odds. 

Færð er víða slæm annars staðar á landinu. Á Vesturlandi er vetrarfærð en víðast hvasst og búist við að skyggni versni töluvert á Holtavörðuheiði þegar líða tekur á daginn. Á Vestfjörðum hefur veginum um Þröskulda verið lokað vegna veðurs og verður það líklega til morguns. Bent er á hjáleið um Innstrandaveg. Vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði er einnig lokaður. Þá er vegurinn um Klettsháls ófær.

Á Norðurlandi hefur Siglufjarðarvegi um Almenninga verið lokað og stórhríð er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Fyrir austan er ófært um Vatnsskarð. Þá er þæfingsfærð á Sólheimavegi og Þingvallavegi austan Þingvallavatns, auk þess sem töluvert hvasst er austan Hafnar.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar bendir á að kuldaskil gangi yfir landið í dag frá suðri til norðurs, með snjókomu, skafrenningi og lélegu skyggni á fjallvegum. Þá verður einnig mjög hvasst, 19-23 m/s, á heiðum á norðvestanverðu landinu. Lægir og styttir upp í kvöld og nótt, fyrst syðst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×