Innlent

Eftir­lits­nefnd með störfum lög­reglu skoðar eftir­för á Sand­gerðis­vegi

Birgir Olgeirsson skrifar
Slysið varð á Sandgerðisvegi síðdegis laugardaginn 18. janúar síðastliðinn. Lögreglan hafði veitt ökumanni á stolinni bifreið eftirför í Reykjanesbæ.
Slysið varð á Sandgerðisvegi síðdegis laugardaginn 18. janúar síðastliðinn. Lögreglan hafði veitt ökumanni á stolinni bifreið eftirför í Reykjanesbæ. grafík/hafsteinn

Eftirlitsnefnd með störfum lögreglu hefur tekið eftirför lögreglunnar á Sandgerðisvegi til skoðunar. Kona liggur þungt haldin á sjúkrahúsi eftir að ökumaðurinn sem lögreglan veitti eftirför, lenti í hörðum árekstri við bíl sem konan var farþegi í.

Slysið varð á Sandgerðisvegi síðdegis laugardaginn 18. janúar síðastliðinn. Lögreglan hafði veitt ökumanni á stolinni bifreið eftirför í Reykjanesbæ.

Var ökumaðurinn á miklum hraða þegar hann reyndi að komast undan lögreglunni. Ökumaðurinn fór í gegnum hringtorgið nærri Keflavíkurflugvelli og inn á Sandgerðisveg.

Þegar hann hafði ekið rúman hálfan kílómetra á Sandgerðisvegi, við slæm akstursskilyrði, fór hann yfir á rangan vegarhelming. Við það rakst hann á bifreið sem tveir voru í, ökumaður og farþegi. Farþeginn er kona og liggur nú þungt haldin á sjúkrahúsi.

Lögreglan á Suðurnesjum sendi frá sér tilkynningu vegna málsins. Þar kom fram að ökumaðurinn væri grunaður um ofsaakstur undir áhrifum fíkniefna.

Sagði lögreglan að maðurinn sætti síbrotagæslu. Í tilkynningunni frá lögreglunni var fullyrt að lögreglumennirnir hefðu dregið verulega úr hraða lögreglubifreiðarinnar áður en slysið varð.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, staðfestir að málinu hefur verið vísað til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið við fréttastofu því það sé á viðkvæmu stigi.

Samkvæmt lögreglulögum ber eftirlitsnefndinni að taka til athugunar mál þegar manneskja lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur sé um refsivert brot.

Yrði það þá hlutverk nefndarinnar að fara yfir aðgerðir lögreglu til að meta hvort eftirförin hafi stofnað lífi annarra í hættu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×