Íranski flugherinn segir að íranskir hermenn hafi skotið tveimur eldflaugum á úkraínsku farþegaþotuna sem skotin var niður fyrir mistök fyrr í mánuðinum.
Þetta kemur fram í bráðabirgðaskýrslu rannsóknarnefndar á vegum íranska flughersins. Segir að tveimur Tor-M1 eldflaugum hafi verið skotið á vélina, en rannsókn Írana stendur enn yfir.
Allir 176 um borð fórust í vélinni sem var á leið frá Teheran í Íran til Kænugarðs í Úkraínu.
Með skýrslunni er raun verið að staðfesta upplýsingar sem New York Times birti fyrir um viku. Þar var greint frá því að tveimur eldflaugum hafi verið skotið á vélina með um hálfrar mínútu millibili.
Eldflaugarnar eru skammdrægar og voru smíðaðar af Sovétríkjunum í þeim tilgangi að skjóta niður flugvélar eða langdrægar eldflaugar.
PS752 hrapaði til jarðar skömmu eftir flugtak, en um borð voru 167 farþegar og níu í áhöfn. Fjöldi þeirra um borð voru kanadískir og sænskir ríkisborgarar.
Írönsk yfirvöld greindu upphaflega frá því að vélin hafi hrapað vegna tæknilegra vandræða, en viðurkenndu skömmu síðar að vélin hafi verið skotin niður fyrir mistök.