Umfjöllun og viðtöl: KR - ÍR 120-92 | KR-ingar stungu af í 4. leikhluta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jakob skoraði 20 stig gegn ÍR.
Jakob skoraði 20 stig gegn ÍR. vísir/bára

KR bar sigurorð af ÍR, 120-92, þegar liðin áttust við í DHL-höllinni í Domino's deild karla í kvöld. Þetta var þriðji heimasigur KR í röð. Liðið er í 4. sæti deildarinnar með 20 stig.

Roberto Kovac og Collin Pryor léku ekki með ÍR vegna meiðsla og munaði um minna. ÍR-ingar eru í 7. sæti deildarinnar.

KR-ingar voru alltaf með frumkvæðið og leiddu allan tímann en slitu sig ekki frá ÍR-ingum fyrr en í 4. leikhluta.

Sóknarleikurinn var í aðalhlutverki í leiknum en varnarleikurinn mætti afgangi. KR-ingar voru með ótrúlega góða skotnýtingu í leiknum og sóknin var hreint afbragð. KR skoraði alls 20 þriggja stiga körfur í aðeins 37 tilraunum (54%). Í fyrri hálfleik var KR með 87% nýtingu inni í teig.

KR náði strax forystunni og komst tíu stigum yfir, 29-19, undir lok 1. leikhluta. ÍR skoraði hins vegar átta af síðustu ellefu stigum 1. leikhluta og var bara þremur stigum undir að honum loknum, 32-29. Þeir gátu ágætlega við unað miðað við frábæra nýtingu KR-inga fyrir utan þriggja stiga línuna (63%).

Georgi Boyanov og Evan Singletary báru þyngstu byrðarnar í sóknarleik ÍR. Í fyrri hálfleik var Boyanov með 21 stig og Singletary með 14 stig og átta stoðsendingar.

Stigaskorið dreifðist betur hjá KR sem var átta stigum yfir í hálfleik, 63-55.

KR komst mest 13 stigum yfir í 3. leikhluta, 80-67, en ÍR kom sér aftur inn í leikinn með því að skora sjö stig í röð.

Eftir 3. leikhluta var munurinn tíu stig, 87-77, möguleikinn enn fyrir hendi hjá ÍR. En KR bauð upp á skotsýningu í 4. leikhluta, raðaði niður þristum og jók muninn.

Á endanum skildu 28 stig liðin að, 120-92. Lokatölurnar gefa ekki alveg rétta mynd af leiknum sem var jafn fyrstu þrjá leikhlutana en í þeim fjórða stakk KR af.

Af hverju vann KR?

Sóknarleikur KR gekk frábærlega og liðið fékk galopin og góð skot hvað eftir annað.

KR-ingar gátu hlaupið á fleiri hestum á meðan það mæddi mest á Boyanov og Singletary hjá ÍR-ingum. Breiddin sagði til sín þegar líða tók á leikinn.

Hverjr stóðu upp úr?

Hjá KR áttu margir góðan dag í sókninni; Jakob Örn Sigurðarson, Dino Cinac, Helgi Már Magnússon, Brynjar Þór Björnsson og Kristófer Acox.

Boyanov var hrikalega öflugur í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði 21 af 29 stigum sínum. Singletary stjórnaði sóknarleik ÍR vel; skoraði 27 stig og gaf 13 stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur ÍR-inga var afleitur allan tímann og KR-ingar skoruðu þegar þeim sýndist. Vörn KR var ekki góð en þó mun skárri en hjá ÍR.

Hvað gerist næst?

Það er skammt stórra högga á milli hjá liðunum. Á sunnudaginn fara KR-ingar norður og mæta Stólunum. ÍR-ingar taka hins vegar á móti Haukum.

Ingi hrósaði sóknarleik sinna manna eftir sigurinn á ÍR.vísir/bára

Ingi Þór: Erum með marga góða skotmenn og þeir voru vel tengdir

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, var mjög ánægður með sigurinn á ÍR og þá sérstaklega sóknarleik sinna manna.

„Við komust tíu stigum yfir í 3. leikhluta og héldum því. Við hittum mjög vel og mér fannst liðið láta boltann ganga vel. Það skapaði sigurinn því vörnin var ekki eins góð og við vildum,“ sagði Ingi.

KR-ingar skoruðu 120 stig í leiknum og voru með 31 stoðsendingu. Skotnýtingin þeirra var frábær, eða 61%.

„Boltahreyfingin var góð. Við fengum mjög góð skot og skytturnar fengu sendingar eins og þeir vilja; beint á móti sér. Við erum með marga góða skotmenn og þeir voru vel tengdir í dag,“ sagði Ingi.

Hann vill sjá KR-inga gera betur í vörninni í næstu leikjum.

„Við hefðum mátt vera nær skotmönnunum þeirra. [Georgi] Boyanov var frábær til að byrja með. Við misstum þá í svæði sem við ætluðum ekki að missa þá í,“ sagði Ingi.

„Þeir gerðu mjög vel. ÍR er með gott lið þótt það vanti leikmenn. [Evan] Singletary var frábær og það er auðvelt að búa til í kringum svoleiðis mann.“

Borche leit á björtu hliðarnar eftir leikinn.vísir/daníel

Borche: Höfðum ekki orku í lokin

Borche Ilievski, þjálfari ÍR, sagði að bensínið hafi verið búið undir lokin hjá sínum mönnum í tapinu fyrir KR í kvöld.

„Lokatölurnar gefa ekki rétta mynd af leiknum en við höfðum ekki orku í lokin. Við áttum í miklum vandræðum í vörninni,“ sagði Borche eftir leik.

„Ég vil einblína á jákvæðu hlutina. Ég fékk meira en ég bjóst við frá Danero [Thomas] sem hefur lítið æft undanfarna daga. Georgi [Boyanov] og Evan [Singletary] voru góðir, ungu strákarnir stóðu sig vel og Daði [Berg Grétarsson] barðist eins og alltaf.“

Vörn ÍR-inga var slök og KR-ingar áttu ekki í neinum vandræðum með að opna hana.

„Við gerðum fullt af mistökum, sérstaklega í vörninni. Við hjálpuðum of mikið og gáfum þeim mörg opin skot. KR er með góðar skyttur og ef þú skilur þá eftir opna skora þeir,“ sagði Borche.

Leikurinn var nokkuð jafn þar til í 4. leikhluta sem KR vann, 33-15.

„Okkur vantaði orku og kraft. Úrslitin sýna ekki hvernig leikurinn var en þetta var öruggur sigur KR og ég óska þeim til hamingju,“ sagði Borche að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira