Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, var gestur Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi í morgun. Þar ræddi hann þau mál sem hafa komið upp í tengslum við fyrirtækið, nú síðast myndband sem birt var á YouTube þar sem hið svokallaða Seðlabankamál er til umfjöllunar.
Í viðtalinu segir Þorsteinn málið ekki vera búið. Von sé á fleiri þáttum en tilgangurinn hafi verið að fá „efnislega umræðu“ um málið í heild sinni. Hann segir sömu einstaklinga ganga harðast fram í umræðunni þegar upp koma mál í tengslum við Samherja og nefnir þar ákveðna stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn.
„Við vorum teknir margir einstaklingar algjörlega af lífi, sama hvort það var af stjórnmálamönnum eða blaðamönnum,“ sagði Þorsteinn varðandi Seðlabankamálið. „Ég ætla bara að benda á hvert var upphaf seðlabankamálsins, hverjir voru að tjá sig og hverjir eru að tjá sig núna.“
Líkt og í fyrri viðtölum snýr gagnrýni Þorsteins einna helst að RÚV og þeirra vinnubrögðum, einnig varðandi fréttaflutning af meintum mútugreiðslum Samherja. Honum þyki ósanngjarnt að hvernig málið sé framsett og hafnar því að fyrirtækið hafi greitt mútur.
„Það er alveg ljóst að við greiddum einhverjar greiðslur til ráðgjafa,“ sagði Þorsteinn. „Við munum sýna fram á það að við höfum ekki verið að múta fólki.“
Hér að neðan má hlusta á fyrri og seinni hluta viðtalsins.