Erlent

Votta Trump samúð sína

Sylvía Hall skrifar
Joe Biden og Kamala Harris.
Joe Biden og Kamala Harris. Vísir/GEtty

Joe Biden forsetaframbjóðandi og Kamala Harris, varaforsetaefni hans, hafa vottað Donald Trump Bandaríkjaforseta samúð sína eftir að greint var frá fráfalli yngri bróður hans í dag. Robert Trump lést á sjúkrahúsi í gær 71 árs að aldri.

„Herra forseti, ég og Jill erum sorgmædd yfir þeim fregnum að yngri bróðir þinn Robert sé látinn. Ég þekki þann sársauka sem fylgir því að missa ástvin – og hversu mikilvæg fjölskyldan er á stundum sem þessum. Ég vona að þú vitir að þið eruð í bænum okkar,“ skrifaði Biden á Twitter í dag. 

Biden missti eiginkonu sína og ársgamla dóttur sína árið 1972 þegar þær létust í bílslysi. Sonur hans Beau Biden lést svo árið 2015 eftir nokkurra ára baráttu við heilaæxli.

Kamala Harris tók undir orð Biden og sendi Trump-fjölskyldunni samúðarkveðjur frá sér og eiginmanni sínum. Hún sagði það aldrei auðvelt að missa ástvin en hann mætti vita að hugur þeirra væri hjá fjölskyldunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×