Erlent

Minnst 170 þúsund dánir í Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Tilfellum fækkandi víðast hvar í Bandaríkjunum, nema Havaí, Suður-Dakóta og Illinois.
Tilfellum fækkandi víðast hvar í Bandaríkjunum, nema Havaí, Suður-Dakóta og Illinois. AP/Wilfredo

Minnst 170 þúsund Bandaríkjamenn hafa nú dáið í kórónuveirufaraldrinum, fleiri en í nokkru öðru ríki og hafa minnst 5,4 milljónir smitast af Covid-19. Það er sömuleiðis mun meira en í öðrum ríkjum heims og er þar að auki talin mun lægra en raunverulegur fjöldi smitaðra.

Brasilía kemur næst á eftir Bandaríkjunum þegar kemur að staðfestum smitum, með 3,3 milljónir smitaðra, og Indland er komið í þriðja sætið, með 2,6 milljónir smitaðra.

Þegar kemur að dauðsföllum af völdum veirunnar eru Brasilíumenn í öðru sæti en þar hafa 108 þúsund manns dáið. Mexíkó er í því þriðja, þar sem tæplega 57 þúsund hafa dáið.

Í Mexíkó greindust tæp 4.500 tilfelli veirunnar bara í gær og 214 létu lífið. Þá segja stjórnvöld þar í landi að allar líkur séu á því að fjöldi smitaðra sé í raun og veru mun meiri en staðfestar tölur gefi til kynna.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni fer tilfellum fækkandi víðast hvar í Bandaríkjunum, nema Havaí, Suður-Dakóta og Illinois. Sérfræðingar óttast þó að smituðum muni fara fjölgandi með haustinu og að flensutímabilið gæti jafnvel gert veikindi vegna Covid-19 verri.

Robert Redfield, yfirmaður Sóttvarnastofnunnar Bandaríkjanna (CDC), hefur varað við því að Bandaríkin gætu upplifað sitt „versta haust“, fari Bandaríkjamenn ekki eftir tilmælum stofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×