Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hefur sent inn kæru til KKÍ á hendur Seth LeDay, leikmanns Grindavíkur, eftir atvik í leik Stjörnunnar og Grindavíkur á mánudaginn.
Seth LeDay og Kyle Johnson, leikmaður Stjörnunnar, lentu saman og í kjölfarið sló Seth í höfuðið á Kyle eins og má sjá í myndbandinu hér efst í fréttinni.
Dómarar leiksins ákváðu að aðhafast ekkert í málinu en Stjarnan hefur nú sent inn kæru. Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, staðfesti þetta við blaðamann Vísis í kvöld.
Kæran verður tekin fyrir á næsta agafundi KKÍ en þetta gæti leitt til þess að Seth muni verða í leikbanni er Fjölnir mætir Grindavík í undanúrslitum Geysisbikarsins um næstu helgi.
Í hinu undanúrslitaeinvíginu mætast einmitt Stjarnan og svo Tindastóll.
Seth hefur komið öflugur inn í lið Grindavíkur frá því að hann gekk í raðir liðsins í síðasta mánuði og fékk mikið hrós í Domino’s Körfuboltakvöldi á dögunum.