Tiltekt hefur staðið yfir víða á Suðurlandi í dag eftir óveður gærdagsins. Hlaða á bæ á Rangárvöllum splundraðist meðal annars og átján tonna súrheysturn skemmdist í Landeyjunum. Þá brotnuðu margir rafmagnsstaurar í veðrinu. Gular viðvaranir eru í gildi fyrir þrjá landshluta.
Bændurnir á Minna Hofi á Rangárvöllum mættu um leið og birti í morgun til að taka til eftir óveðrið en hlaðan þar við gamalt fjárhús hrundi, auk þess sem gaflinn úr fjárhúsinu fór úr í vindinum.
„Hlaðan er náttúrulega algjörlega farin nema veggstubbarnir, rokið hreinsaði ofan af henni og gaflinn úr fjárhúsinu“, segir Magnús Ingvarsson á Minna Hofi.
Á bænum eru nokkrar kindur. „Já, við erum með einhverjar þrjátíu kindur hérna, hobbý dæmi. Þær voru náttúrulega frekar hissa á þessum látur, það voru sem betur fer bara tvær veturgamlar inn í þessu húsi, þær fundust undir járnabrakinu en það er allt í lagi með þær“, bætir Magnús við.
Fjölmargir rafmagnsstaurar skammt austan við Hvolsvöll brotnuðu í veðrinu og tekur eflaust einhvern tíma að skipta þeim út fyrir nýja.

Það gekk mikið á í veðrinu á bænum Skíðbakka II í Austur – Landeyjum þegar súrheysturn skemmdist. Turninn var felldur í morgun.
Það var tilkomu mikið að sjá þegar turninn féll til jarðar, 18 tonn á þyngd, 21 metir á hæð og 35 ára gamall, en það voru starfsmenn Þjótanda á Hellu sem toguðu turninn niður með hjólagröfu.
„Undir það síðasta hefur hann bara verið fjarskiptamastur en svo höfum við verið með korn í honum og það var alveg inn í myndinni að halda því áfram að nota hann, sem korngeymslu en auðvitað var hann upphaflega heyturn“, segir Elvar Eyvindsson, bóndi.
Elvar þakkar því að það varð ekki meira tjón á bænum í gær hversu mikið af trjám og skjólbeltum er í kringum bæinn, sem gáfu gott skjól.
„Það er ótrúlegt að við skulum ekki gera meira af því að rækta tré og skjól. Ég held að það væri almannavarnarmál að hafa almennilegt skjól“, segir Elvar.