Breska leikkonan Sophie Turner og bandaríski söngvarinn Joe Jonas eiga von á sínu fyrsta barni, að því er heimildir fjölmiðlar vestanhafs herma. Þau gengu í hjónaband í fyrra.
Hollywood Reporter er á meðal miðla sem greina í dag frá væntanlegum erfingja stjörnuparsins. Talsmenn Turner og Jonas vildu þó ekki tjá sig um málið við miðilinn.
Parið trúlofaði sig árið 2017 eftir að hafa verið saman í um eitt ár. Þau gengu svo fyrst í það heilaga við látlausa athöfn í Las Vegas í maí í fyrra og giftu sig svo í annað sinn í Frakklandi mánuði síðar. Joe Jonas er 29 ára gamall og gerði garðinn frægan með bræðrum sínum í hljómsveitinni Jonas Brothers. Sveitin tók nýlega saman aftur og gaf út plötu í fyrra eftir langt hlé.
Sophie Turner er 23 ára gömul og sló í gegn sem Sansa Stark í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones.